143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

tilkynning um dagskrártillögu.

[13:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um dagskrártillögu um þingmál sem varðar ríka almannahagsmuni og almenn sátt ríkir um að fari aftast á dagskrá þingfundar í dag og svo órætt til nefndar til að það komist í umsagnarferli.

Þetta kostar þingið eina mínútu í lok þingfundar og þingnefnd kannski tvær mínútur. Rannsóknir McKinseys, Boston Consulting Group og World Economic Forum eru afdráttarlausar. Þetta þingmál mun kalla eftir vinnu sem mun efla atvinnulífið, fjölga störfum, hækka laun, auka hagvöxt, bæta menntun, lækka útgjöld hins opinbera, styrkja langtímasamkeppnishæfni og auka samfélagslega velferð, sem allt styður við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar enda styður viðskiptaráðherra málið ásamt þingmönnum úr öllum flokkum, þar með talinn formaður atvinnuveganefndar sem málið gengur til.

Ég kalla því eftir að við greiðum atkvæði um þetta og notum jafnvel þá vinnureglu í framtíðinni að hleypa málum sem almenn sátt ríkir um og varða ríka almannahagsmuni til nefndar og í umsagnarferli þannig að við nýtum þá verkferla (Forseti hringir.) til að geta unnið málin betur í framtíðinni.