143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

tilkynning um dagskrártillögu.

[13:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu erum við að greiða atkvæði um að ákveðið mál fari órætt til nefndar. Það kostar eina mínútu. Það er hefð fyrir því að nota þetta fyrirkomulag. Þá er mál sett á dagskrá í lok þingfundar. Svo fer ein mínúta í að þingforseti lesi upp að það fari órætt í nefnd. Þar tekur það kannski tvær mínútur fyrir formann nefndar að segja: Ég vil fá þetta mál í umsagnarferli. Og þá er kallað eftir umsögnum utan úr bæ. Umsagnirnar safnast saman þannig að það verður hægt að vinna þetta mál betur í sumar. Þannig er hægt að svara umsögnunum og gera ferlið faglegra í sumar og leggja málið síðan aftur fram í haust.

Við erum að fara að ræða 4. dagskrármálið í dag, um opinber fjármál, sem er til 1. umr. og verður ekki klárað núna heldur á einmitt að fara í umsagnarferli í nefnd. Það verður ekkert rætt í nefndinni, fer bara í umsagnarferli þannig að hægt sé að fá umsagnirnar núna og vinna að málinu í sumar.

Ég greiði atkvæði með málinu.