143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ghasem Mohamadi er ungur maður sem er staddur hér á landi og kemur upprunalega frá Afganistan. Honum á að vísa úr landi, aftur til Svíþjóðar samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni svokölluðu. Það er oft fullyrt að samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni eigi Ísland að senda fólk úr landi aftur til svokallaðs fyrsta ríkis, þ.e. fyrsta ríkis þar sem sótt er um hæli. Þetta er rangt. Það má en það á ekki að gera.

Það er það fyrsta sem ég vil árétta.

Í öðru lagi er oft talað um í þessu samhengi að stytta málsmeðferðartímann sem ég tel verðugt markmið og mikilvægt. En það er ekki nóg. Það þarf peninga í málaflokkinn til að geta átt við þessi mál á viðunandi hátt og síðast en ekki síst og það sem ég vil helst koma hér að er að við á Alþingi þurfum, og íslensk þjóð almennt, aðeins að endurskoða hvernig við ætlum að koma fram við útlendinga sem koma hingað til landsins, óháð því hvort þeir eru flóttamenn eða bara fólk sem vill heimsækja ástvini eða vill koma hingað til að vinna eða hvaðeina. Meginreglan hér sem og næstum því alls staðar er sú að fólk megi ekki koma hingað og búa nema það sé eitthvað sérstakt.

Við þurfum alltaf ástæðu til að hleypa fólki inn þegar það ætti í reynd að vera öfugt. Það er sjálfsagt í nútímaheimi að við leyfum fólki að búa þar sem það vill búa ef það eru engar sérstakar málefnalegar ástæður fyrir því að gera það ekki.

Því langaði mig að vekja athygli á máli Ghasems, ekki aðeins vegna þess að það er umhugsunarefni hvernig komið er fyrir honum heldur líka hvernig komið er fyrir öllum þeim sem eru í hans stöðu og fara ekki í hungurverkfall heldur eru einfaldlega sendir heim, aftur til Afganistans þar sem hefur verið stríð í allt of langan tíma.

Ég hvet þingmenn alla til að endurhugsa innflytjenda- og útlendingamál frá grunni, ekki einungis með hliðsjón af því að stytta málsmeðferðartímann og gera þetta ódýrara og auðveldara heldur umfram allt, virðulegi forseti, mannúðlegra.