143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nýlega bárust fréttir af því að Landsbanki Íslands hafi átt hæsta tilboðið í lóð á Hörpureitnum við Reykjavíkurhöfn en ekki kemur fram í fréttinni hvert verðið var fyrir lóðina, sem Landsbankinn hefur reyndar ekki tekið endanlega ákvörðun um hvernig eigi að nýta þrátt fyrir að hann hafi keypt hana. Sagt er að þarna eigi að reisa nýjar höfuðstöðvar bankans.

Með fyrirvara um að lóðarverðið er ekki þekkt má reikna með því að það kosti um 7,5–10 milljarða að byggja þessar höfuðstöðvar, sem eru peningar sem væri betur varið í það að greiða arð til ríkisins af hagnaði bankans vegna þess að bankinn er í eigu ríkissjóðs að rúmum 90%.

Sé orðið mjög þröngt um bankann og höfuðstöðvar hans er sjálfsagt og eðlilegt að benda bankamönnum á að víða á höfuðborgarsvæðinu stendur autt skrifstofuhúsnæði sem hentar mjög vel til slíkrar starfsemi, þar á meðal í Kópavogi, öndvegishúsnæði, alveg nýtt, óinnréttað, það er hægt að fara í það að ganga þar frá.

Það er líka athugunarefni að þessi banki, sem ætlar nú jafnvel að fara að eyða þessum peningum í nýjar höfuðstöðvar, fékk í heimanmund þegar hann var stofnaður mjög sérkennilegan gjörning sem er 300 milljarða kr. skuldabréf í erlendri mynt, sem er líklega einn mesti myllusteinn sem lengi hefur verið hengdur um háls nokkurs fyrirtækis á Íslandi og er í sjálfu sér sérstakt efnahagslegt vandamál.

Ég held að það væri réttara fyrir bankann að nota alla þá peninga sem verða til í fyrsta lagi til að greiða eðlilegan arð í ríkissjóð og í öðru lagi til að standa við það skuldabréf sem hangir yfir hausnum á bankanum og þar með skattgreiðendum í landinu.