143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í umræðunum um skuldaaðgerðir ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins var talsverð gagnrýni frá nokkrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar um að aðgerðirnar væru að mestu fyrir þá eignameiri og tekjuhærri. Hins vegar er það svo að um 60% aðgerðanna ná til heimila sem hafa heildarlaun upp á 670 þús. kr. á mánuði. Sem dæmi eru það hjón með rúmar 300 þús. kr. í heildarlaun á mánuði.

Umfang skuldaleiðréttingarinnar er 150 milljarðar og nær til um 73 þús. heimila sem hafa verðtryggð lán.

Í kjölfarið á þessari gagnrýni langar mig að koma fram með ákveðnar tölur en á síðasta kjörtímabili voru samtals 45 milljarðar af verðtryggðum húsnæðisskuldum færðir niður vegna aðgerða fyrri ríkisstjórnar, m.a. vegna 110%-leiðarinnar. Þær aðgerðir nýttust aðeins um 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir, þ.e. um 7.300 heimilum. Um 1% heimilanna fékk um helming niðurfærslunnar, rúmlega 20 milljarða kr. Þetta 1% heimila, 775 heimili, fékk allt yfir 15 millj. kr. niðurfærslu en meðaltal niðurfærslna var 26 millj. kr. Meðaltekjur þessara heimila á mánuði árið 2009 voru 750 þús. kr. en um tugur þessara heimila var með meðaltekjur yfir 2 millj. kr. á mánuði.

Einnig fengu um 95% þessara 775 heimila sérstakar vaxtabætur frá ríkinu vegna húsnæðisskulda að fjárhæð tæplega 300 millj. kr.

Herra forseti. Ef horft er á samanburðartölur milli aðgerða núverandi og þáverandi stjórnvalda hafa fyrirliggjandi gögn sýnt fram á að 30% af heildarfjárhæð 110%-leiðarinnar fóru til heimila með yfir 10 millj. kr. tekjur í árslaun en um 25% af núverandi aðgerðum fara til heimila með slíkar tekjur.

Síðasta ríkisstjórn (Forseti hringir.) setti 10 milljarða kr. á tveimur árum í sérstakar vaxtabætur. Áhrif þeirra aðgerða á tekjuhópa eru að mestu leyti svipuð áhrifum leiðréttingarinnar á tekjuhópana. Þó er athyglisvert að heimili með tekjur undir 4 millj. kr. fengu 21% af sérstökum vaxtabótum en áætlað er að sami tekjuhópur fái 24% í aðgerðum ríkisstjórnarinnar nú.

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk.)