143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég var minnt á það í gær að ár væri frá því að hér var kosið og það hafa kannski ekki margir haldið upp á það, eða hvað? Það sem hefur einkennt þessa ríkisstjórn finnst mér fyrst og fremst vera ráðaleysið. Hún er mjög ráðalaus og hefur ekki þegið góð ráð frá okkur hinum sem líka sitjum á Alþingi. Dæmi um ráðaleysið er stærsta kosningamálið, skuldamálin sem eru ekki enn komin til framkvæmda, þau eru enn í vinnslu. Og hvar er hin margumtalaða reiknivél? Afnám verðtryggingar, ekkert hefur frést af því. Gjaldeyrishöftin, hvað er að frétta af þeim málum? Ekkert hefur frést af þeim. Loforð til aðila vinnmarkaðarins um lækkun gjalda er ekki enn komið til framkvæmda. Skattalækkanir, en fyrir hverja? Fyrir hátekjufólk en ekki var hægt að mæta lágtekjufólki í kjarasamningum þegar aðilar vinnumarkaðarins voru að semja og ASÍ lagði áherslu á að lækka persónuafslátt. Ekki var hægt að mæta þeim. Náttúruverndarlögin voru rifin upp. Nú er komið í rammalöggjöfina að það verður enginn náttúrupassi, náttúrunni blæðir en engir peningar eru til að hugsa um náttúruna og lagfæra það sem þarf. Svo er það hækkun komugjalda á sjúkrahús og núna til að kóróna allt saman enn frekari lækkun á veiðigjöldum. Þetta er ekki mikið til að hrósa sér af. Þess vegna kemur þessi vísa upp í hugann:

Ráðalaus ríkisstjórn

rennur beint í svaðið.

Það þætti tæpast mikil fórn

þá færi hún í taðið.