143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Herra forseti. Mig langaði að byrja á því að vekja athygli þingheims á því að í Egyptalandi voru 700 manns dæmdir til dauða, þar á meðal fyrrverandi forseti landsins. Mér finnst þetta mjög alvarleg þróun og mundi vilja að utanríkismálanefnd kallaði til sín sérfræðinga úr utanríkisráðuneytinu til að fara yfir ástandið í Egyptalandi, en það er lítið tala um það. Við erum þó með diplómatísk samskipti við landið og ættum að skipta okkur af því sem er að gerast þar þegar við erum að tala um dauðadóm yfir svo mörgum manneskjum.

Jafnframt langar mig að benda á, af því að við erum í svo góðum samskiptum við Kína, að þar var verið að dæma þann sem stóð að skipulagi á verkfallsaðgerðum gagnvart Nike í fangelsi. Mér finnst að við eigum að nota tækifærið og benda vinum okkar í Kína á að slíkt sé ekki til fyrirmyndar. Í raun mundi ég gjarnan vilja fá að vita hvað sé að gerast með viðaukann eða aukasamninginn sem tengdist vinnumálum þegar fríverslunarsamningurinn var samþykktur.

Síðan langaði mig að benda þingmönnum á að líta á frétt um hvað starfsmenn Séð & heyrt í Danmörku voru að bralla í samstarfi við starfsmenn kreditkortafyrirtækis þar í landi, en þeir borguðu fyrir að fá aðgengi að upplýsingum um hvernig ýmsir þekktir aðilar notuðu kreditkortin sín. Ég bendi á að það heyrir líka undir gagnageymd og Seðlabankinn hýsir sambærilegar upplýsingar um allar okkar færslur, sér í lagi þar sem við notum kortin okkar erlendis. (Forseti hringir.) Þetta þarf virkilega að skoða og skora ég á viðeigandi (Forseti hringir.) nefnd að skoða það.