143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

svar við fyrirspurn.

[14:14]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs undir þessum dagskrárlið og á þessum degi vegna þess að við erum að fara að ræða veiðigjöld hér á eftir. Ég bar fram fyrirspurn í upphafi þings, 3. október síðastliðinn, til hæstv. ráðherra um skiptingu veiðigjalda og afslátt vegna kvótakaupa o.fl. Það sem ég ætla að gera athugasemd við og leita ásjár hæstv. forseta Alþingis um er að ég bað um að svarið við fyrirspurninni væri sundurliðað eftir sveitarfélögum og kjördæmum.

Svarið kom en var þá eingöngu sundurliðað eftir kjördæmum. Ráðherra taldi sig ekki vegna persónuverndarsjónarmiða geta skipt þessu niður á einstök sveitarfélög. Virðulegi forseti. Ég er mjög óánægður með það svar og að fá ekki svar við spurningu minni og tel að löggjafarþingið eigi rétt á því að fá þetta svar. Nú ber svo vel í veiði að hæstv. ráðherra er hér í salnum þannig að mig langar að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort þetta hafi ekki verið endurskoðað og hvort ekki sé hægt að verða við þeim vilja sem lagður hefur verið fram á Alþingi með þessari fyrirspurn, að alþingismenn fái svar við fyrirspurninni.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að skattálagning á almenning í landinu er opin til skoðunar fyrir landsmenn í hálfan mánuð (Forseti hringir.) á ári hjá skattstofum. Ég tel (Forseti hringir.) að persónuverndarsjónarmið geti ekki komið í veg fyrir að alþingismenn fái þetta svar.