143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

svar við fyrirspurn.

[14:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Þó að þetta sé kannski ekki beint um fundarstjórn forseta en engu að síður um hvað fram fer í þinginu varðandi fyrirspurn hv. þm. Kristjáns L. Möllers og ástæður þess að ekki reyndist unnt að mati okkar í ráðuneytinu að leggja fram umbeðnar upplýsingar þá er það auðvitað þannig að í mörgum tilvikum í minnstu sveitarfélögunum eru þetta mjög persónulegar upplýsingar og menn hafa ekki talið eðlilegt að setja þær fram. Það er hins vegar mjög mikilvægt fyrir atvinnuveganefnd að hafa sem gleggstar upplýsingar um málið og þær upplýsingar sem nefndin mun fara fram á til þess að geta tekið ákvörðun í þessu máli í vinnu sinni verða án efa veittar, svo fremi að lagaleg heimild sé fyrir því.