143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

svar við fyrirspurn.

[14:18]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði þá harma ég að þurfa að taka þetta mál upp undir þessum dagskrárlið en ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og benda á, eins og ég gerði hér áðan, að skattgreiðslur almennings eru opnar í ákveðinn tíma þannig að það er ekki meira leynd yfir þeim en svo.

Ég hef líka nefnt, og vil gera það úr ræðustól Alþingis, við hæstv. ráðherra að bjóða upp á að allra minnstu sveitarfélögunum verði steypt saman í hverju kjördæmi. Við getum sett sveitarfélög undir 200 eða 300 ef það gæti verið til bóta fyrir ráðuneytið. Ég vek athygli á því að þingmenn hafa spurt um skattgreiðslur eftir kjördæmum og eftir sveitarfélögum og fengið þær niðurstöður, jafnvel í minnstu sveitarfélögunum sem eru ekki með mikið meira en 50 íbúa. Þannig hafa svona gögn fengist og spurning hvort það verður þá gert núna í vinnu atvinnuveganefndar.

Ég vil helst beina því til forseta og hvetja hæstv. ráðherra til þess að endurskoða þessa ákvörðun sína og dreifa þessu sem formlegu þingskjali og viðbót eða uppprentun á þessu svari.