143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þegar hv. þingmaður talar um að hægt sé að hækka gjaldtöku sérstaklega á makríl á þessu ári hafi hann algerlega gleymt því að í samningum strandríkjanna, sem okkur var reyndar haldið utan við, var ákveðið að veiða um 40% umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem gerir að verkum að magnið sem kemur inn á markaðina er um 82% meira hjá Evrópusambandinu og Noregi en ella hefði verið í fyrra. Þá held ég að hv. þingmaður gleymi því ástandi sem er í austrinu, í Rússlandi og Úkraínu, sem er mikilvægasti markaður fyrir makríl, m.a. okkar Íslendinga, og líkurnar á því að makríllinn sérstaklega, úr því að hann tiltók hann hér, standi undir einhverjum ævintýralegum hækkunum á gjaldi eru nokkuð ólíklegar. Ég óttast því miður að það verði á hinn veginn, að erfitt verði að koma öllum þessum makríl á markað á viðunandi verði og að standa undir þeim kostnaði sem veiðunum fylgir.