143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af því að gjaldið geti verið íþyngjandi fyrir mörg af minni fyrirtækjum landsins. Ég kom ítarlega inn á það í ræðu minni og tel að til framtíðar getum við ekki haldið áfram á þessari braut. Hvort sem horft er til ríkisáætlunar fjármála eða einhverra annarra verðum við að horfa á rekstur atvinnugreinarinnar eins og hún liggur fyrir.

Þess vegna verður aðgangsgjaldið í framtíðinni að taka meira mið af greiðslugetu þessara fyrirtækja.

Varðandi það hvort við séum ekki að verja fjölbreytileikann er einmitt verið að koma til móts við það hér með þeim afkomustuðlum að það séu mismunandi greiðslur fyrir mismunandi stofna, þar með að þær tegundir sem engin framlegð er í í veiðum greiði einungis lágmarksgjald, þ.e. 1 kr. á kíló, en þær tegundir sem meiri framlegð er í greiði hærra gjald.