143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar þetta ákvæði var sett inn í veiðigjaldslögin var það samdóma álit þeirra sem sátu í atvinnuveganefnd, sama í hvaða flokki þeir voru, að það væri nauðsynlegt til að koma til móts við eftirhrunsárin. Það voru líka allir sammála um að það væri ákveðinn siðvandi að þeir sem voru skuldsettastir væru með sérstakan afslátt en þeir sem fóru varlega nytu ekki slíkra afslátta.

Hér er spurt hvað þýði að setja leiðréttingar innan gæsalappa. Það er einfaldlega þannig að leiðréttingar í bankakerfinu eru alla vega. Sumt er kannski afskriftir og annað einhvers konar leiðréttingar. Það liggur ekkert meira á bak við þetta en það að við getum ekki sagt að allir hafi fengið sömu afskriftirnar eða leiðréttingarnar heldur eru þær mismunandi. Það liggur ekkert annað á bak við gæsalappirnar.