143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á fundi veiðigjaldsnefndar með atvinnuveganefnd þar sem hún skýrði tillögur sínar og mikla vinnu við að búa til svokallaða afkomustuðla sem eru komnir inn í frumvarpið kom líka fram að veiðigjaldsnefnd hafi óskað eftir og bent á að breyta þyrfti ýmsu í uppgjörum og skilum til ríkisskattstjóra til þess að gera kerfið einfaldara og komast nær samtímaupplýsingum til að leggja á veiðigjald. Fram kom að þar var fjallað um þetta og í því ráðuneyti hlutu góðar og fínar tillögur náð, getum við sagt, en voru sendar í fjármálaráðuneytið til frekari útfærslu.

Það hefur hins vegar ekkert verið gert hvað það varðar. Sá sem hér stendur hefur oft talað fyrir þessari leið og mun gera betur grein fyrir henni á eftir en langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að það mál, með þeim breytingum sem hefði þurft að gera á skattalögum, strandaði í fjármálaráðuneytinu og hefur ekki komist lengra?