143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra ræddi mikið í framsögu sinni um mismun á milli lítilla og meðalstórra fyrirtækja og stórútgerða og að það þyrfti að mæta minni útgerðunum með einhverjum hætti. Það er ekki gert í þessu frumvarpi þar sem er bara sett krónutala á afkomustuðla í bolfiski og fyrirtæki greiða jafnt hvort sem um er að ræða smærri útgerð, Granda, Síldarvinnsluna eða eitthvert af stóru fyrirtækjunum sem skila miklum hagnaði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji þetta eðlilegt miðað við orð sín hér áðan. Skil ég það rétt að að teknu tilliti til afsláttar verði samanlagt gjald, fast gjald og sérstakt gjald, á margar fisktegundir lægra en grunngjaldið er í dag, en það er 9,50 aurar, þ.e. að grunngjaldið geti orðið lægra en það og því yrði ekkert grunngjald í gildi ef þessi lög yrðu samþykkt?