143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að frítekjumarkinu er ekki breytt í prinsippinu, það er bara breytt um aðferðafræði, yfir í fasta krónutölu.

Hins vegar verð ég að segja alveg eins og er að varðandi skuldafsláttinn er akkúrat verið að gera hið gagnstæða. Ekki er verið að heimila að skuldsetning eftir að veiðigjaldslögin tóku gildi, að þau kvótakaup komi til skattafsláttar. Þetta er eingöngu miðað við þann tíma þegar lögin tóku gildi. Breytingin núna felst í því að hafi einhverjir fengið skuldaleiðréttingar frá þeim tíma þá séu þær dregnar frá áður en til slíks afsláttar komi. Það er akkúrat þannig að það er engin skuldsetning vegna kvótakaupa eftir 2012, 1. janúar eða 5. júlí, ég man nú ekki hvort var, sem kemur til þarna inni.

Þetta er fortíðarvandi sem þingið ákvað fyrir tveimur árum að setja inn með fimm ára reglu. Við erum fyrst og fremst að fullnusta þá reglu vegna þess að menn hafa ákveðnar væntingar þar inni, en taka á þessari leiðréttingu þannig að þeir sem hafi fengið einhverjar leiðréttingar, afskriftir, endurnýjun á lánum, (Forseti hringir.) sitji ekki við sama borð og þeir sem ekki hafa fengið slíkt.