143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir ágæta ræðu. Mér fannst hann í ræðu sinni fara svolítið yfir í það að gefa þeirri stefnu og þeim frumvörpum sem lögð voru fram í þeim meiri hluta sem hann studdi og starfaði með á síðasta kjörtímabili algjöra falleinkunn, þegar hann talaði hér um viðmið við EBITDA og slíkt.

Nú liggja fyrir upplýsingar sem færa okkur enn nær sannleikanum í þessu máli, þó að ég geti vissulega tekið undir með honum að enn má gera betur og enn þarf að gera betur. En það liggja fyrir upplýsingar. Hann talaði um að þetta skatthlutfall kæmi fram, 35% á greinina, sem væri þá heildarskatthlutfallið. Það eru reyndar vísbendingar um að það sé mun hærra vegna þess að afkoman er mun lakari á árinu 2013 en reiknað var með og vonast var til. Það eru vísbendingar um að hún fari enn niður á árinu 2014.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur hann einhverja hugmynd um hvar þetta skatthlutfall má liggja? Það er alveg ljóst hvar það lægi ef hugmyndir síðustu ríkisstjórnar hefðu gengið eftir í álagningu veiðigjalda og hver áhrifin á þær viðkvæmu byggðir sem hv. þingmaður var að fara yfir, hefðu verið. Það þarf bara ekki einu sinni að fara yfir þá vitleysu, þá villu og svíma sem menn óðu í á síðasta kjörtímabili. En hvar má þetta liggja? Hversu mikið hlutfall af hagnaði, afkomu sjávarútvegsfyrirtækja, er eðlilegt að taka í veiðigjöld?