143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:23]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á bls. 90 með frumvarpinu er ansi athyglisverð tafla þar sem veiðigjaldsnefnd freistar þess að sýna okkur hvernig þetta hefur verið gert í vinnu hennar og hjá Hagfræðistofnun. Þar eru teknar sjö tegundir, því miður er makríll ekki þar inni en kolmunni er þar. Verðmæti kolmunna eru 3 milljarðar kr., landaður afli er 104 þúsund tonn, veiddur á 343 dögum. Aflahluturinn er 947 milljónir, úthaldskostnaður 1.148, þannig að framlegð er þarna talin vera 912 milljónir eða 9 kr. á kíló og afkomustuðullinn 0,10.

Þetta finnst mér, ef öll þessi fræði eru rétt, nú hef ég þann fyrirvara, vera á réttri leið. Ég tek fram að á fundi nefndarinnar voru settar fram upplýsingar um humarveiðar sem mér þóttu ekki mjög góðar. Ég held að þær hafi síðan verið leiðréttar. (Forseti hringir.) En hér er þetta unnið fyrir hverja tegund fyrir sig. Nú er ég ekki (Forseti hringir.) með það á hreinu varðandi makrílinn, hvað veitt er af honum (Forseti hringir.) eða hvernig þetta er sett hér af því að það er ekki í töflunni, en ég ætla að leyfa mér að segja, virðulegi forseti, að eins og þessi tafla er sett fram (Forseti hringir.) er þetta á réttri leið.

(Forseti (SilG): Forseti biður þingmenn um að virða ræðutíma.)