143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki nema von að manninum sé mikið niðri fyrir, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, eins og hann skildi við eftir þessi fjögur ár sem hann hafði tækifæri til að reyna að laga hér til. (Gripið fram í.) Það er ekki nema von að kliður fari um salinn þegar þetta er dregið fram.

Það sem ég var að segja, hefði ekki verið meira vit í því að efla atvinnulífið meira en gert var þannig að við hefðum ekki þurft að borga þessar atvinnuleysisbætur en hefðum getað skapað þessu fólki vinnu, með verðmætasköpun? (Gripið fram í: Það var reynt.) Það eru áherslur þessarar ríkisstjórnar.

En hv. þingmaður kaus að svara ekki spurningum mínum. Hann er hér í skeytastíl og nokkuð hávær að vanda. En ég lagði fyrir hann einfaldar spurningar: Vill hann að lagt verði viðbótarveiðigjald á veiðar á makríl og þá hversu mikið? Vill hann að veiðigjöld á rækju verði felld niður? Vill hann, hv. þingmaður, að veiðigjöldin á kolmunna verði lækkuð, byggt á þeim upplýsingum sem við höfum í þessu frumvarpi? Þetta eru einfaldar spurningar sem ég kýs að fá svör við. Ég mun halda ræðu hér á eftir og þá gefst þingmanninum tækifæri á að spyrja mig út í mína ræðu. Ég ætla ekki að vera hér í andsvörum við hann eða svara spurningum frá honum í þessum ræðustúf.

Framlegðin var mjög góð, eins og komið hefur fram, á árinu 2012, einhver sú besta í sögu íslensks sjávarútvegs, við áttum góð ár þar á undan líka. En eru þessi veiðigjöld, þessir 18 milljarðar sem veiðigjöldin hafa verið í dag, eðlileg álagning að mati hv. þingmanns miðað við það, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum, að framlegðin hafi farið niður um 25–30% í sjávarútvegi á árinu 2013 og að vísbendingar séu um að hún sé að fara enn frekar niður á þessu ári, jafnvel 10–15%?