143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:11]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp um veiðigjöld og hér eru stjórnarflokkarnir að vinna áfram með veiðigjöld á því formi sem forverar þeirra í stjórn settu fram. Í kosningabaráttunni var fólki tíðrætt um mikilvægi þess að skapa sátt í sjávarútvegi. Sátt þýðir margt, m.a. það að geta haft fyrirsjáanleika í rekstri sínum og það hafa verið áherslur Bjartrar framtíðar. Mér þykir það því ágætt hjá sjávarútvegsráðherra að vinna með það sem er gert til þess að gæta samræmis og samfellu. Það er mikilvægt fyrir fyrirtækin að vita með einhverri vissu rekstrargrundvöll sinn meira en ár eða fjögur ár fram í tímann.

Þeir sem þekkja til vita vel að það hvernig gjöldin voru fundin út og sett á var oft ófullkomið. En þetta var fyrsta skrefið og þorskígildi á mismunandi tegundum eru tvist og bast og miðuð út frá gömlum og ófullkomnum gögnum. Þetta viðurkenna til dæmis vinstri menn fúslega og ég hef heyrt það í ræðum frá til að mynda hv. þm. Árna Páli Árnasyni og hv. þm. Kristjáni L. Möller að veiðigjöldin hafi alltaf verið hugsuð þannig að þau ættu að vera í mótun, þau hafi ekki verið fullkomin í þeirra tíð og þau þurfi að skoða með tilliti til afkomu og rekstrar.

Herra forseti. Það þarf að skoða hve mikið fiskast hverju sinni. Það þarf að skoða hvað það kostar að sækja mismunandi tegundir, mikilvægi þess að sækja þó dýrar tegundir til þess að halda veiðirétti, eins og að sækja kolmunna í lögsögu hjá Færeyjum. Svo er mismunandi hvað markaðurinn borgar fyrir tegundirnar, fyrir hverja tegund fyrir sig. Það eru margar breytur sem verður að taka tillit til og gjöldin sem renna í ríkissjóð þurfa og munu alltaf sveiflast eftir þeim, þ.e. ef það á að leggja þau á á sanngjörnum grunni og ef það á á annað borð að gera það í formi veiðigjalda. Um þetta eru menn almennt sammála, a.m.k. þeir þingmenn, heyrist mér, sem sitja núna í atvinnuveganefnd og fjalla um þessi mál.

Nú virðist sem verið sé að taka næsta skref í álagningu veiðigjalda og ákveða verð út frá fyrrnefndum undirliggjandi forsendum í sjávarútvegi og út frá gögnum sem hafa með hverja tegund fyrir sig að gera og eru nærtæk í tíma. Það erum ekki við í pólitíkinni sem sitjum við og reiknum heldur er það hlutverk veiðigjaldsnefndar samkvæmt lögum og þau hafa fengið til liðs við sig Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Sú nefnd er ópólitísk og þess ber að geta að núna situr þar mikið til sama fólkið og í tíð Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Það er nefndin sem hefur komist að niðurstöðu um stuðla miðað við afkomu hverrar tegundar fyrir sig og notar til þess gögn sem eru mun nær í tíma en áður hefur verið. Það er mikilvægt að hafa í huga.

Það hafa margir komið hér upp og farið stórum orðum um lækkun tekna í ríkissjóð og ég hef sömuleiðis áhyggjur af því. Það má segja ýmislegt um þetta kerfi sem slíkt, þ.e. veiðigjöldin, sem stjórnunartæki í sjávarútvegi hjá okkur. Það er skoðun okkar í Bjartri framtíð að það megi ekki setja fyrst verðmiðann á og athuga svo hve margir geta tekið þátt og geta yfir höfuð borgað. Það er eins og að þurfa að selja íbúðina sína sem er metin á 20 milljónir en setja á hana 100 milljónir vegna þess að mann vantar svo peninginn. Það er ekki rétta leiðin að okkar mati og hún getur hreinlega leitt til þess að auðlindin verði ekki nýtt.

Það er til dæmis það sem er að gerast í kolmunnaveiðum og mér heyrist allir nefndarmenn í atvinnuveganefnd sem hafa kynnt sér málið vera sammála um að til dæmis þarna þurfi að lækka gjöld. Því finnst mér ekki alveg sanngjarnt að stilla þessu upp þannig að það sé frumvarpið um veiðigjöldin sem sé vandamálið. Vandamálið er að afkoman í sjávarútvegi er heldur verri núna en hún hefur verið á síðustu árum, sem teljast mjög góð. Þetta vitum við alveg. Við vitum að miðin gefa misvel af sér og árin eru misgóð og núna er aðeins farið að síga niður á kúrfunni.

Það sem skiptir mestu máli er að sjávarútvegurinn borgi sanngjarna rentu fyrir að fá að nýta auðlindina og hana þarf að finna út á gagnsæjan og skýran hátt. Hér er stigið ágætisskref í þá átt að mínu mati. Það byggist á útreikningum nær í tíma en áður hefur verið hægt að vinna með og út frá viðeigandi breytum fyrir hverja tegund fyrir sig.

Það er svo önnur umræða hvort við eigum að taka upp annað kerfi, eins og uppboð, en þess ber að geta í þeirri umræðu núna, út af því að ég heyri að margir eru spenntir fyrir því, allir gömlu flokkarnir hafa haft tækifæri til þess að gera það. Á þessu stigi málsins er það þetta sem við erum að vinna með, þetta frumvarp til laga um veiðigjöld. Þetta er bara 1. umr. og við eigum eftir að vinna með það áfram í atvinnuveganefnd. Eins og við þekkjum vel í nefndastarfi koma iðulega fram gagnlegar umsagnir og við eigum góða fundi sem nýtast okkur við að skila frumvarpinu sem berst frá okkur til 2. umr. hér í þinginu.