143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:17]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir það frumvarp sem hann leggur hér fram. Ég var ekki sáttur við frumvarpið sem lagt var fram fyrir ári síðan en nú horfum við fram á veginn og hefur frumvarpið tekið bótum sem eru ágætar. Það eru líka ýmsir gallar við þetta frumvarp sem ég ætla aðeins að renna yfir og ræða. Mér finnst samt sem áður mjög mikilvægt að við reynum að finna lausnir sem leiða til þess að í endann verðum við bærilega sátt við niðurstöðuna.

Mig langar líka, áður en lengra verður haldið, að taka undir það sem hv. þm. Björt Ólafsdóttir sagði hérna áðan, að það er auðvitað ekki hægt að setja verðmiðann fyrst á veiðigjaldið og sjá síðan til hvort menn þoli það þegar upp er staðið. Gjaldið tekur mið af afkomu veiða og 35% af EBITDA og vinnslu, 20% EBIT, og EBT er allur hagnaður fyrir skatt og þá er óeðlilegt að margar útgerðir greiði gjald sem tekur mið af afkomu vinnslunnar án þess að á bak við útgerðina standi vinnsla. Það þyngir mjög hjá mörgum útgerðum og ég er mjög óhress með það ákvæði í þessum lögum, eins og ég hef áður bent á, og tel það reyndar bara afar óeðlilegt að blanda því saman á þann hátt sem hér er gert og hefur verið gert. Vonandi getum við skoðað það betur í atvinnuveganefnd þegar við fáum frumvarpið til umsagnar.

Eins og hjá öðrum fyrirtækjum kemur svo 20% tekjuskattur ofan á þetta allt saman og hann er auðvitað eðlilegur, en þegar allt þetta er komið saman dregur það úr mætti fyrirtækjanna til þess að standa í nýsköpun, sem er afar mikilvægt og mörg fyrirtæki hafa gert það gríðarlega vel, eins og fyrirtæki í Grindavík þar sem Þorbjörninn og Vísir hafa á síðastliðin ár verið með verkefni, Codland, sem nú þegar hefur skapað veruleg tækifæri, mörg atvinnutækifæri. Þar eru í boði fjölbreytt og vel launuð störf. Þar er hugmyndin að í framtíðinni verði hægt að vinna aukaafurðir fyrir allt að 100 milljarða á ári. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt og við þurfum stór og öflug fyrirtæki til þess að geta farið í þá vegferð. Þess vegna verðum við líka að vara okkur á því að ganga ekki of nærri þeim í skattlagningu, af því að mér finnst að þetta veiðigjald líkara skatti en gjaldi. Ég ætla að koma inn á það á eftir. Þetta gjald er miðað við óslægðan afla en aflaheimildir sem gefnar eru út eru miðaðar við slægðan afla þannig að það ruglar dæmið aðeins, að mér finnst.

Svo tekur gjaldið mið af afkomu ársins 2012, sem var afar gott ár fyrir útveginn, en komið hefur fram hjá hæstv. ráðherra að nú þegar er hafin vinna við að skoða breytingar sem urðu á árinu 2013. Það er auðvitað mjög mikilvægt að þetta gjald, veiðigjald, auðlindagjald, geti orðið lifandi gjald sem taki breytingum eftir mörkuðum.

Ég vil nefna dæmi um fyrirtæki sem var í loðnu á síðustu vertíð og nýtti yfir 80% loðnuheimilda sinna til vinnslu, frystingar og kúttunar. En það gefur augaleið að slíkt fyrirtæki sem hefur kannski haft kvóta sem nemur u.þ.b. 30 þús. tonnum og gat náð hámarksverðmætum úr honum — vonandi verður kvótinn aukinn töluvert á næstu vertíð, en það segir sig sjálft að aukningin muni ekki öll fara í frystingu og dýrustu pakkningarnar. Hún mun auðvitað fara meira í mjöl og lýsi og þá er verðmætastuðullinn allt annar og lækkar. En við erum með fast gjald þannig að það er margt að varast og við þurfum að geta miðað við svona breytingar í umhverfinu. Það eru líka útgerðir sem geta sótt í síld og reynt að veiða bara stærstu síldina, sem hafa tækifæri til þess að sækja langt og fara í stóra síld. En þau fyrirtæki sem verða að láta sér það lynda að veiða jafnvel blandaðri síld og minni síld verða oft að vinna með síld á verðbili sem numið getur 50%, frá því að vera með síld á hæsta verði og niður í lægsta verðið fyrir minnstu síldina. Það er því erfitt að leggja gjaldið á og sýnir og sannar að þetta eru ekki bara einfaldir útreikningar. Svo er það auðvitað eins og alltaf þegar við ræðum um skatta að háir skattar leiða til þess að menn leita leiða til að komast undan þeim. Það er það ömurlega við það.

Því til viðbótar eru blikur á lofti í okkar helstu viðskiptalöndum. Ég vil nefna Úkraínu sem dæmi og Rússland og auk þess er viðskiptahindrunum beitt í Nígeríu þar sem settar hafa verið takmarkanir á innflutning á fiski. Þessi lönd hafa skipt okkur gríðarlega miklu máli á síðustu árum. Makríllinn, sem verið hefur mikill bjargvættur fyrir þjóðarbúið, hefur farið austur til þessara landa og núna þegar vinaþjóðir okkar hafa ákveðið að hækka kvótann mjög mikið á makríl og farið upp í 1,3 millj. tonn er fyrirséð mikil verðlækkun og það mun náttúrlega skaða útveg okkar. Þegar við reynum að taka þetta saman verðum við að átta okkur á því að veiðigjöld mega aldrei koma í veg fyrir að útgerðin og veiðimaðurinn reyni að leita nýrra miða og afla nýrra tegunda til vinnslu. Það er líka mjög mikilvægt að hafa það í huga í þessu samhengi þegar við tölum um fjarlæga markaði sem nýta tegundir sem við Íslendingar kærum okkur ekki um að nýta mjög mikið.

Ég hef haft áhyggjur af því að útgerð án vinnslu muni ekki standa vel undir þessu veiðigjaldi og að einstaklingsútgerð hafi hreinlega ekki bolmagn til þess. Ég hef sjálfur oft talað fyrir því úr þessum stól að við þurfum að hafa lifandi veiðigjald sem taki mið af mörkuðum frá degi til dags. Einföld prósenta, eins og við þekkjum í svo mörgum öðrum útreikningum, hafnargjöldum og öðru, sem við finnum út og endurvarpar og skýrir veiðigjaldið þess vegna frá degi til dags, frá löndun til löndunar, þar sem framboð og eftirspurn geta haft áhrif á verðið, á líka að hafa áhrif á veiðigjaldið að mínu mati.

Ég vil ítreka það að mér finnst að veiðigjaldið eigi alls ekki að vera skattur. Það þarf fyrst og fremst að vera aðgangur að auðlindinni og samkvæmt fullkomnu veiðigjaldafyrirkomulagi eiga allir að borga sama gjaldið sem hafa aðgang að auðlindinni, ég held að það sé afar mikilvægt. Þá er það líka mjög mikilvægt að veiðigjaldið greiðist eingöngu af lönduðum afla. Það er ekki svo í þessu frumvarpi og var ekki í því síðasta, heldur hafa fyrirtækin þurft að greiða veiðigjald af úthlutuðum afla. Það getur komið sér afar illa. Við getum tekið dæmi af síðustu loðnuvertíð, sem var nú ekki til þess að hrópa húrra fyrir. Ekki náðist að veiða kvótann sem var 163 þús. tonn en árið áður var hann 460 þús. tonn og náðist allur. En núna áttu mörg fyrirtæki töluverðan kvóta syndandi í sjónum þegar veiðunum var hætt og þau þurftu að greiða fullt veiðigjald af þeim fiski sem synti áfram frjáls í sjónum. Það er því einfalt í mínum huga að það er alveg útilokað að veiðigjöld geti orðið til þess að fyrirtæki greiði af ólönduðum afla. Það geta ýmsar náttúrulegar aðstæður skapast sem verða til þess að fyrirtæki ná ekki aflanum og það er sérstaklega viðkvæmt í uppsjávarveiðum þar sem þær hætta stundum mjög snögglega eins og þær koma stundum mjög snögglega, þannig að það er mikilvægt að því verði breytt í lögunum.

Það er mikilvægt að veiðigjaldið komi ekki í veg fyrir að fyrirtækin geti staðið í endurnýjun og fjárfestingum og nýsköpun sem kemur samfélögunum til góða. Það er mikilvægt að við tryggjum að hinar dreifðari byggðir geti haldið áfram að eiga öflugar útgerðir til þess að halda lífi í atvinnuvegum í hverju byggðarlagi fyrir sig. Eins og komið hefur fram í umræðunni í dag hjá hv. þingmönnum þarf auðvitað að taka auðlindagjald af fleiri auðlindum en þeirri sem er í sjónum. Það er umræða sem við þurfum að taka á næstu árum og þess vegna er mikilvægt nú þegar við erum að fara af stað með þessi gjöld að þau verði einföld og góð fyrirmynd að því sem koma skal og að þau séu hógvær.

Þess vegna er ég sammála því sem hv. þm. Kristján L. Möller sagði að það er mikilvægt að þjóðin fái sanngjarnt og hóflegt gjald fyrir aðgang að auðlindinni. Ég held að það sé alveg ljóst. Það er mikill vilji fyrir því í útgerðinni að greiða slíkt gjald sem er hóflegt og getur orðið til þess að þjóðin sjái með opnu bókhaldi hvað gjaldið er á hverjum tíma. Þess vegna tek ég undir það sem hér hefur komið fram að það er ekki rétt að fara aftast í bókhaldið og taka það inn í tekjuskattinn, heldur að það verði alltaf sýnilegt hvert gjaldið er fyrir aðganginn að auðlindinni. Ég held að það sé mikilvægt að við löndum slíku frumvarpi sem við getum orðið sæmilega sátt við og að allir geti borið höfuðið hátt.

Að lokum vil ég segja að það er mjög mikilvægt að við búum ekki fyrst til töluna sem við þurfum að fá til þess að halda fjárlögum innan rammans. Ég held að það sé mikilvægt að við búum atvinnulífinu, útgerðinni og fiskvinnslunni þá umgjörð að hún geti blómstrað, bætt við sig störfum, fjölgað þeim og borgað hærri laun og þjóðfélagið allt græði á því þegar upp er staðið. Það er frumvarp sem ég vildi sjá að við lönduðum hérna saman í lok þessarar umræðu, sem hefur verið góð, hún hefur farið heiðarlega fram og ég kann að meta það þegar hv. þingmenn tala af þekkingu og góðu viti um þessi mál. Eðlilega erum við ekki alveg sammála um alla hluti, en ég held að með svona umræðu munum við ná þeim árangri sem bestur er fyrir þjóðina.