143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þegar hann fjallar um afurðaverðið þá er rétt að minna hv. þingmann á að spár Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna um verðþróun á sjávarafurðum á næstu missirum og árum er nú um tæplega 40% hækkunarhorfur í þeim efnum, þannig að ég held að það sé kannski fullsnemmt að missa sig í svartsýninni yfir þróun á afurðaverði meðan spár um þróun heimsmarkaðar eru á þá lund.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé því sammála að í skipulaginu á veiðigjaldakerfinu væri eðlilegt og sanngjarnt að sérstakt gjald væri á nýjar tegundir, þ.e. að við tækjum að ákveðnu leyti tillit til þeirra sem hafa verið í útgerð í bolfiski, og svo sem uppsjávarfiski líka, og keypt þar aflaheimildir á markaði, skuldsett útgerðir sínar með kaupum á aflaheimildum, og að gjöldin á þær tegundir væru þá hóflegri en á nýjar tegundir eins og makrílinn sem kemur inn í lögsöguna og enginn hefur keypt kvóta í, enginn hefur skuldsett sig til þess að fá réttinn til að veiða, hvort þingmanninum þætti rétt að sérstakt gjald væri á nýjar tegundir þar sem menn eru að fá aflaheimildirnar bara frá ríkinu skuldlausar í raun og greiddu þá sérstaklega fyrir það.

Ég vil kannski líka spyrja hann hvort honum finnist það ekkert skrýtið og hvort hann geti rökstutt það hvers vegna íslenskir útgerðarmenn eigi bara að borga 7,5 krónur fyrir hvert kíló af makríl sem þeir veiða hér í íslenskri lögsögu meðan þeir borga 15 krónur fyrir hvert kíló sem þeir veiða í færeyskri lögsögu og enn þá meira ef þeir sigla með aflann út úr þeirri lögsögu, (Forseti hringir.) og 30 krónur fyrir hvert kíló af makríl sem þeir veiða í grænlenskri lögsögu.