143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er margt til í því sem þingmaðurinn segir, að gjaldið ber auðvitað að mörgu leyti meiri einkenni skatts en gjalds og það tekur mið af afkomunni árið 2012. Það er auðvitað ákveðinn galli, en það var slík afkoma árið 2012, hátt í 100 milljarða framlegð í greininni, að þó menn þurfi vegna afkomunnar það ár að greiða þetta vel innan við 10 milljarða, kannski 10% af framlegðinni og jafnvel innan við það, í gjald fyrir aðgang að auðlindinni þá má það nú teljast ekki hóflegt heldur bara beinlínis hlægilega lágt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála okkur sem höfum verið þeirrar skoðunar að eðlilegast og sanngjarnast sé að láta hinn frjálsa markað ráða þessari verðlagningu, ráða þessu gjaldi, að útgerðarmenn bjóði í heimildirnar og geri út á grunni þess verðs sem fæst í markaðsviðskiptum. Ég spyr líka hvort við getum ekki verið sammála um að það gjald sem sjávarútvegsráðherra er hér að leggja til, 11 krónur fyrir réttinn til að veiða eitt kíló af þorski, það sé hlægilega langt frá raunvirði þessara heimilda. Að menn mundu, ef þessar heimildir væru allar saman bara boðnar falar, borga margfalt meira, margfalt, ekki bara mörgum krónum eða mörgum tugum prósenta, heldur margfalt meira en 11 krónur fyrir að fá þennan aðgang að auðlindinni. Ég spyr hvort hann sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins sé ekki þeirrar skoðunar að markaðurinn væri besti dómarinn í þessum efnum svo að við þyrftum ekki að vera að rífast um þetta hér á hverju ári hvort þetta sé of hátt eða of lágt.