143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað fullt af öðrum atriðum sem væri gaman að fara í en mig langar að halda aðeins áfram.

Hv. þingmaður hafði ýmsar athugasemdir við það frumvarp sem hér er lagt fram og taldi að það væru enn þá gallar á því. Hann taldi það þó vera betra og kom svo að því að það væri að einhverju leyti nær í tíma. En staðreyndin er sú að það er ekkert nær í tíma. Það er verið að miða við nákvæmlega það sama og gert var í gamla frumvarpinu, hagstofutölur frá því fyrir rúmu ári, þ.e. frá 2012.

Hæstv. ráðherra upplýsti þó að von væri um að það gætu komið upplýsingar um 2013. Mér fyndist frábært ef það væri hægt. Þá væri þess vegna hægt að nota gamla fyrirkomulagið við álagningu ef menn kæmust það nærri. Mig langar að heyra sjónarmiðin í þessu. Hvað var það sem var svo miklu betra í þeim tillögum? Eru það afkomustuðlarnir sem hafa þann galla sem hv. þingmaður hefur nefnt, hversu vel gefa þeir upp raunafkomu í greininni?

Í framhaldi af hugmyndunum sem hv. þingmaður kom með um hvernig ætti að leggja á gjöldin, að ekki mætti leggja á fiskvinnsluna o.s.frv., langar mig að spyrja hann um tekjuskattinn. Mér heyrðist hv. þingmaður vera á móti því að fara yfir í að leggja á tekjuskatt. Ég er honum sammála um það, ég sé ekki fyrir mér að það muni endast í mörg ár að það verði sérstakur tekjuskattur ofan á sjávarútveg. Mér fyndist það mjög óeðlilegt. Það verður að vera einhver önnur réttlæting á gjaldtöku sem er aðgangurinn að auðlindinni. Ég tek undir með honum að það þurfi þá að vera í öllum auðlindum, við þurfum að koma okkur þangað að það sé greitt almennt.

Ég deili ekki skoðun hv. þingmanns á því að háir skattar þýði aukin skattsvik. Það er svo merkilegt að skattsvik virðast hanga við ákveðna hópa óháð því hvað á þá er lagt. Það er út af fyrir sig áhyggjuefni.

Mig langar í lokin að spyrja um eitt: Veiðigjöldin, sem ýmsar smærri útgerðir borga til stórútgerðarinnar eða þeirra sem geta ráðstafað kvóta, hvað finnst honum um það og (Forseti hringir.) hvert er verðið á því samanborið við það sem ríkið er að leggja á og hver fær þær tekjur? Þá er ég að tala um leigu innan ársins.