143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:47]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi viðmiðunarárið þá tek ég undir það, en ég átti líka við að það kom fram hjá hæstv. ráðherra að nú þegar á að fara að reikna út árið 2013 sem mun gefa nákvæmari mynd. Ég er líka að tala um að það sé jákvætt með afkomustuðlana. Þeir leiðbeina okkur, hvað útvegurinn þolir. Mér finnst að það sé mjög jákvætt þó að ég hafi enn verið að tala um það, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, að ég hefði viljað fara einfaldari leiðir í málinu og ég hef rætt það í nefndinni og hér áður í þessum sal og skrifað um það greinar.

Varðandi skattsvikin get ég þó bara sagt eins og í ræðu minni áðan að háir skattar væru líklegri til að fyrirtæki reyndu undanskot. Ég var ekki að fullyrða um skattsvik og vil ekki gera þessari grein það upp að hún stundi það, alls ekki, öðru nær. Ég held að rekin sé mjög heiðarleg og öflug starfsemi í öllum útgerðum.

Varðandi smærri útgerðir og leigukvótann þá hef ég haft mjög ákveðnar skoðanir á því. Mér finnst verð á leigukvóta allt of hátt og það sendir okkur ekki þau skilaboð að sumar útgerðir geti ekki borgað hóflegt veiðigjald. Ég tek undir það með hv. þingmanni að leigugjald er of hátt og það er í raun önnur umræða sem ég er alveg tilbúinn að taka hvenær sem er, um það hvernig við ættum að breyta þessum leigumarkaði, hann er mikilvægur. Framsalið í kvótanum er mikilvægasta greinin en hún er líka sú erfiðasta og vandmeðfarnasta.