143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér lækkun á veiðigjöldum. Það hefur verið fróðleg og fjörleg umræða á köflum um þá lækkun sem boðuð er í frumvarpinu. Áðan var talað um af hverju verið væri að lækka veiðigjöldin mikið í ár. Við vitum að lækkunin var á síðasta ári um 6,5 milljarðar á ársgrundvelli en nú er verið að tala um að það geti verið um 2,8 milljarðar á þessu og næsta ári. Ég væri nokkuð sátt við hluta þessarar lækkunar ef hægt væri að skilyrða lækkunina við hærri laun í fiskvinnslu í landinu. Það er oft talað um það á tyllidögum að hækka þurfi laun í sjávarútvegi, í fiskvinnslunni, en þau eru skammarlega lág. Sem betur fer eru yfirleitt mjög há laun til sjós en sá hluti greinarinnar sem hefur í raun og veru staðið undir þessari miklu verðmætasköpun í sjávarútvegi hefur ekki notið sömu virðingar í launum og aðrir aðilar innan þeirrar greinar sem hirða arðinn án þess að hika við það á hverju ári þótt menn beri sig illa og barmi sér undan veiðigjaldi, eins og grátkórar undanfarinna ára hafa sýnt. Ég held því að sjávarútvegsráðherra mætti vel skoða þann möguleika að útgerðin fengi að velja á milli upp að einhverju marki hækkun launa í fiskvinnslu og þess að greiða veiðigjald. Ég kem þessu á framfæri til hans og ég efast ekki um að hann taki því vel.

Hvers vegna er ástæða til að lækka veiðigjald núna? Maður spyr sig að því. Eru nægjanleg rök fyrir þeirri lækkun sem er verið að tala um á þessum breytingum og að fara alfarið frá þeirri hugsun að miða við auðlindarentu af greininni, af aðgangi að auðlindinni og fara í ígildi tekjuskattsálagningar, sem mér sýnist menn vera að fara út í? Ég held að ég muni það nokkuð rétt að ég heyrði þær tölur að á 10 ára tímabili fyrir hrun hafi útgerð í landinu greitt að meðaltali 1 milljarð á ári í tekjuskatt. Ég gleymi þessari tölu ekki vegna þess að mér fannst hún svo fráleit. Þannig er nú það. Það hefur verið mjög auðvelt, held ég, í gegnum tíðina að koma hagnaði fyrir einhvers staðar í staðinn fyrir að menn greiði eðlilega skatta til samfélagsins. Ég held að það sé ekki rétt að fara inn á þá braut að menn hafi möguleika á að fela hagnað sinn í dótturfélögum erlendis og á ýmsan hátt áður en kemur að því að greiða fyrir aðgang að auðlindinni til samfélagsins.

Hér hefur einnig verið nefnd leiga útgerða þeirra á milli. Þar eru menn að greiða 200–300 kr. í leigu eftir tegundum til annarra útgerðaraðila. Þá spyr maður sig um getu greinarinnar til þess að borga öðrum útgerðaraðila þá upphæð þegar verið er að tala um 13 kr. í veiðigjald á kílóið af bolfiski. Maður spyr sig líka hvert menn stefna nú í sjávarútvegsmálum. Á að niðurnjörva hlutina eins og þeir eru í dag, óbreyttir með samningum, og taka einhver málamyndaveiðigjöld af greininni og tala svo um að menn séu að fara sáttaleið og samningsleið sem hafi verið rædd í starfshópi á vegum fyrrverandi ríkisstjórnar? Ég tel að við séum langt í burtu frá þeirri vegferð sem farið var í á síðasta kjörtímabili og þeim sem núna verma ríkisstjórnarstólana tókst snyrtilega að eyðileggja þá vegferð. Það hefði verið betra ef hægt hefði verið að ganga frá þeim breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og festa niður það sem áformað var, að útgerðin greiddi eðlilega rentu fyrir aðgang að auðlindinni.

Höldum áfram í samanburði til þess að menn sjái hlutina í svolítið skýrara ljósi, því að oft verða menn ruglaðir af að heyra tölur fram og til baka og yfir því hvaða mælikvarðar eru þar á bak við. Mér var sagt að einn krókur á línu kostaði 13 kr. hjá línuútgerð í landinu. Til samanburðar við það borga menn 13 kr. á eitt kíló af bolfiski í veiðigjald. Ég hef ekki heyrt neina amast við því hjá þeim útgerðum sem þurfa að gera út á línu að þurfa að versla sér króka á 13 kr. stykkið. Allt er þetta ansi afstætt í stóra samhenginu.

Ég spyr líka: Hvernig ætlar ríkisvaldið að bæta þetta mikla tekjutap fyrir ríkissjóð? Menn hafa talað hér um að það eigi ekki að vera búið að ákveða hvað ríkið ætlar að framkvæma og hvað það ætlar að gera og leggja svo á útgerðina í samræmi við það. Það var aldrei meiningin. Það var meiningin að menn mundu láta þetta sérstaka veiðigjald fylgja hagnaði eða tapi í greininni og þess vegna væri hægt að mæta verðbreytingum á mörkuðum eins og menn hafa verið að tala um, að framlegðin hafi minnkað og tekjurnar. En maður spyr sig á móti: Sá gífurlegi hagnaður sem varð hér árið 2012, þar sem útgerðir í landinu voru samanlagt með eitthvað yfir 80 milljarða í hagnað eftir veiðigjöld, verða menn ekki að horfa yfir sviðið til lengri tíma, bæði fram á við og líka til baka? Við þekkjum auðvitað ekki framtíðina svo nákvæmlega, hvað hún ber í skauti sér, en menn reikna með að það verði framtíð í sjávarútvegi yfir höfuð og að þetta taki eðlilega einhverjum sveiflum og menn þurfa ekki að fara alveg á límingunum þótt verð sem hafa verið í hæstu hæðum slaki eitthvað niður.

Miðað við stöðu íslensks sjávarútvegs og kynningu á erlendum mörkuðum, það hversu vel greinin hefur sem betur fer náð að markaðssetja sig og hversu góð ímynd hennar er úti í hinum stóra heimi tel ég ekki að við þurfum að óttast það að íslenskar afurðir í sjávarútvegi verði ekki eftirsóttar til framtíðar. Mér finnst ansi snautlegt þegar menn tala eins og himinn og jörð séu að farast ef það verða sveiflur í verði á mjöli og lýsi og einhverjum fisktegundum sem síðan koma aftur upp, og segja að það þurfi að styrkja sjávarútveginn í bak og fyrir.

Svo gleyma menn því sem þeir tjalda alltaf á hátíðarstundum, að þessar litlu og meðalstóru útgerðir séu í vanda og, eins og einn hv. þingmaður komst að áðan eða lét að því liggja, að það megi kenna veiðigjöldum um að margar sjávarbyggðir hafi glímt við mikla erfiðleika. Ætli það sé ekki eitthvað annað en veiðigjöldin sem valda því? Manni finnst það sífellt hjákátlegra því oftar sem maður heyrir það af munni þeirra sem hafa talið að hagræðing í framsali sé það besta sem komið hefur fyrir greinina. Svo verða menn mjög hissa á afleiðingum þess og fara að tíunda að það hljóti að vera veiðigjaldinu að kenna þegar hriktir í undirstöðum þorpa í ljósi framsals og samþjöppunar og hagræðingar og þau eiga sér enga vörn. Ég held að menn verði að vera samkvæmir sjálfum sér.

Ef menn ætla að vera samkvæmir sjálfum sér og styrkja minni útgerðir og meðalstórar útgerðir eiga þeir að gera það raunverulega. Auðlindahagfræðingurinn Daði Már Kristófersson hefur nefnt í umræðu um þessi mál undanfarna daga að það eigi að skipta upp þessum útgerðarflokkum, hafa sérstakt veiðigjald á stórútgerðinni og finna út á annan hátt veiðigjald á minni og meðalstórar útgerðir. Það kom skýrt fram í máli hans í Ríkisútvarpinu á dögunum að hann teldi mjög auðvelt fyrir stærstu útgerðirnar og stórútgerðir í landinu að standa undir veiðigjaldinu, það þyrfti ekki að lækka það. Hins vegar væri vissulega vandi hjá mörgum minni og meðalstórum útgerðum sem þyrfti að horfa til. Það er ekki gert í þessu frumvarpi.

Það er verið að breyta tengingu við það sem áður var frítekjumark. Þar sem búið er að kasta þorskígildisstuðlinum fyrir róða er því breytt í krónutöluafsláttinn sem er sambærilegur en gerður öðruvísi og breytt í krónutölu. Af hverju var ekki horft til þess að hækka þetta frítekjumark og koma þannig til móts við minni útgerðir? Þær eru vissulega margar hverjar staddar langt frá þeim stórútgerðum í landinu sem mala gull og eru margar duglegar við að koma hagnaðinum fyrir erlendis, svo það sé ekki nokkur hætta á að almenningur í landinu sem á auðlindina saman hafi hagnað af og geti byggt upp samfélag sitt og innviði þess eftir hið ömurlega hrun sem frjálshyggjan í landinu kom yfir okkur sem þjóð. Nei, frekar er fundin einhver krónutala sem er ekki einu sinni nógu vel vörðuð staðreyndum.

Mér finnst að rökstyðja þurfi allar breytingar eins og áætlað var að gera með fyrra veiðigjaldafrumvarp, að veiðigjaldsnefnd hefði það hlutverk að koma til móts við minni og meðalstórar útgerðir og endurskoða þorskígildisstuðulinn og reyna að koma viðmiðunarálagningu sem næst nútímanum. Mér heyrist á umræðunni í dag að það séu einhverjar líkur á að það takist en það var eins og að tala út í loftið að reyna ná þeim aðilum saman sem þá var verið að reyna að ná saman, Hagstofunni og Fiskistofu og ríkisskattstjóra. En ef það hefur eitthvað liðkast til er grundvöllur fyrir því að ná þessari álagningu sem næst samtímanum, ef við vinnum áfram með þá hugsun sem felst í auðlindarentunni.

Ég gef ekki mikið fyrir þetta frumvarp og tel það vera eitthvað sem ætti að pakka niður, eins og menn hafa gert með ýmislegt sem þeir fóru fram með í þessari ríkisstjórn en sáu svo að sér. Það ætti að hugsa þannig að alveg sé hægt að nota ýmislegt sem fyrri ríkisstjórn gerði og lét leggja mikla vinnu í. Það er engin skömm að því að vinna áfram með mál (Forseti hringir.) sem fyrri ríkisstjórn hefur undirbyggt. Menn ættu að nota tíma sinn til þess að gera eitthvað af viti.