143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur nú fyrir hjá ríkisskattstjóra að skattsvik í landinu eru áætluð um 15 milljarðar. Því miður á það jafnt við um fyrirtæki sem einstaklinga. Ég held að við verðum að horfast í augu við það og við eigum ekki að leggja fram frumvörp að lögum sem ýta undir möguleikann á að komast undan því að greiða skatt. Ég tel rétt að við tölum íslensku í þessum málum en lítum ekki á þetta sem eitthvert feimnismál. Skattundanskot eru því miður allt of algeng á Íslandi og við þurfum að vinna á því.

Á síðasta kjörtímabili var unnið að því með aðilum vinnumarkaðarins og ríkisskattstjóra, eins og hv. þingmaður ætti að vita, og árangurinn var nokkuð góður. Ég er því ekkert feimin við að tala um þetta eins og það er. Ég held að það hefði átt gera hér fyrr á árum, þá hefði kannski verið búið að taka á þessu eitthvað fyrr og meira fengist í ríkiskassann til að byggja upp samfélagið.

Hv. þingmaður talar um að veiðigjöld hafi verið lækkuð mikið á síðasta ári fyrir hinar minni útgerðir. Ég set þær útgerðir, minni og meðalstórar, ekki í sama flokk og stórfyrirtæki, þessi fjögur stærstu fyrirtæki í landinu sem sýndu um 28 milljarða hagnað í afkomutölum sínum á síðasta ári — að þau séu sett í sama flokk og eigi að borga sama gjald og var sett á síðasta ári, rúmar 7 kr., (Forseti hringir.) tel ég ekki vera mikið jafnræði en það er í stíl við annað hjá þessari ríkisstjórn.