143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á hvernig þessi ríkisstjórn forgangsraðar. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir fór hér mjög vel yfir það hvernig auknar aflaheimildir hafa verið gjafagjörningar ríkisstjórnarinnar í hendur útgerðarinnar. Fyrir þessa fjármuni, á aðeins tveimur árum, hefðum við getað reist Landspítala og búið hann tækjum að fullu. Það er ágætt að hafa í huga að auðlindin í sjónum er mikil auðlind, við búum við sterkan og öflugan sjávarútveg og viljum hafa það svo áframhaldandi, en við viljum líka að við öll njótum auðlindarentunnar.

Mér finnst því eðlilegt að spyrja hv. þingmann hvort hún taki ekki undir, mér fannst það koma fram hér í máli hennar, að það sé óviðunandi að álagning þessa gjalds sé í höndum stjórnmálamanna til frambúðar. Er það ekki okkar að ákveða eftir hvaða reglum úthlutað er en að verðið ákvarðist síðan á markaði? Er það forsvaranlegt að bara af því við fáum slæma ríkisstjórn þá sé möguleiki, með nánast einu pennastriki, að svipta ríkissjóð, og þar með okkur almenning á Íslandi, tekjum upp á milljarða og jafnvel tugi milljarða króna?