143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var farið um víðan völl í þessari ræðu hjá hv. þingmanni. Ég kannast reyndar ekki við að hafa trompast hér áðan yfir þessari framsalsumræðu. (SII: Trompað.) Hv. þingmaður sagði að ég hefði trompast. (SII: Trompað.) Trompað? Ókei, ég var bara að inna eftir því hvort menn könnuðust ekki við krógann sinn. Ef menn telja að framsalið sé upphaf alls ills í íslenskum sjávarútvegi er ég bara að minna á hvaða flokkar komu því á laggirnar, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag. Svo koma þingmenn þeirra og kannast ekki við krógann sinn í umræðunni sem er mjög algengt. (Gripið fram í: Var það ekki Framsókn …) Sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn því á sínum tíma, hvers vegna sem það var nú, þetta er sennilega eitthvað það besta sem hefur verið gert í þessu.

Stóra atvinnugreinin sem nýtir auðlindir og markaðurinn á að ráða, já, það væri fróðlegt að heyra þá hversu langt á að ganga í því. Á að láta til dæmis markaðinn ráða varðandi náttúruauðlindir almennt? Þá á ég við til dæmis ferðaþjónustuna. Hvernig ættum við að innleiða það?

Mig langar að spyrja hv. þingmann, hún segir reyndar, ég verð að koma því að, að fyrsta verk okkar hafi verið að lækka álögur á veiðiheimildir í fyrra. Auðvitað lækkuðum við ekkert veiðigjöldin í fyrra, við hækkuðum þau ekki. Við fylgdum ekki áformum fyrri ríkisstjórnar um það hækkunarferli sem hún hafði boðað. Við aftur á móti lækkuðum veiðigjöld á lítil og meðalstór fyrirtæki en við hækkuðum þau á þá sem hv. þingmaður kallaði auðmenn þessa lands og auðstéttir í þessu landi. Þannig gengum við gegn því sem við erum yfirleitt vænd um.

Aðeins um þessa markaðsleið. Hefur þingmaðurinn engar áhyggjur af því hverjir kaupa ef markaðsleiðin verður farin? Hverjir verða þess umkomnir að kaupa? Hverjir eru til dæmis að kaupa þau sjávarútvegsfyrirtæki sem eru að leggja upp laupana (Forseti hringir.) í dag út af erfiðum aðstæðum? Það eru nefnilega stóru fyrirtækin í þessu landi. Er þingmaðurinn að tala fyrir því, sem er út af fyrir sig alveg sjónarmið (Forseti hringir.) og skoðun, að það verði hér meiri samþætting, hér muni sem sagt fækka fyrirtækjum í sjávarútvegi og við munum breyta útgerðarforminu?