143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á áhugaverðan hlut þar sem hún ræddi um náttúruauðlindir í þjóðareigu og nálgunina í þeim efnum, þar á meðal líka áform um að undirstrika slíka sameign þjóðarinnar með ákvæði í stjórnarskrá, hvað ekki hefur orðið. Síðan ræddi hv. þingmaður út frá þessu talsvert um það hvernig menn gætu nálgast það að finna þá rétta verðlagningu á aðgangi einkaaðila að þessari sameiginlegu auðlind. Hún nefndi í þeim efnum markaðinn og mögulegt uppboð veiðiheimilda eða aðgangsréttar til að nálgast niðurstöðu að því leyti. Út af fyrir sig geta menn velt vöngum yfir því en mig langar hins vegar til að spyrja hv. þingmann, vegna þess að mér finnst þess stundum gæta í umræðunni að menn nálgist þetta sameignarhugtak og mikilvægi þess fyrir og fremst út frá spurningunni um að þjóðin geti í gegnum það náð auðlindaarðinum og rentunni til sín. Ég hef alltaf sett fyrirvara við slíka nálgun vegna þess að í mínum huga er það svo margt fleira sem gefur sameigninni gildi í þessum efnum.

Ég spyr hv. þingmann: Er hún ekki sammála því að við erum að hugsa um margt í senn þegar við viljum festa sameignina í stjórnarskrá, þar á meðal og ekki síður forræði þjóðarinnar og lýðræðislega kjörinna fulltrúa til að fara með málefni þessarar auðlindar í gegnum það að hún er sameiginleg, að stýra nýtingu hennar á sjálfbæran hátt, að geta til dæmis innleitt í lög ýmis félagsleg og byggðaleg markmið sem stjórnvöld vilja ná fram samhliða því að búa til ábatasaman atvinnuveg á grundvelli þess að menn hafi aðgang að auðlindinni?