143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Á síðasta kjörtímabili var fiskveiðistjórnin og veiðigjöldin oft og einatt til umfjöllunar. Ég fór yfir það í ræðu minni að þar hefði ýmislegt gengið á og sumt hefði mátt fara betur. En að lokum var hægt að innleiða hér veiðigjöld sem voru á engan hátt óeðlileg þó að nú sé með salamíaðferð búið að skera þau niður. Þau veiðigjöld hefði verið gott að vera búin að leggja á fyrr, auðvitað voru veiðigjöld en þau voru bara miklu lægri. Okkur tókst undir lok kjörtímabilsins að innleiða í löggjöf þau gjöld.

Ég tók líka eftir því að í ræðu sinni hér áðan benti hv. þm. Ásmundur Friðriksson á það augljósa sem er það ósanngjarna í þessari leið, það er verkefni okkar hér að breyta því kerfi, að einstaka fyrirtæki borgar mismunandi gjald fyrir sambærileg sérleyfi, þau fyrirtæki sem eru hvað best rekin og með hvað mestan hagnað eiga að greiða meira fyrir hvert kíló af þorski af því að þetta er tengt við afkomu fyrirtækjanna. Það er þetta sem á að vera markmið okkar til lengri tíma að breyta þó að þetta hafi verið niðurstaðan sem tímabundin leið til að innheimta þessi gjöld.