143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:58]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ekki tamt að líta um öxl. Ég held að fyrir aftan okkur séu engin mál sem við leysum ef við ætlum að bakka út í gamla drullupollinn. Ég verð að segja það að á síðasta kjörtímabili töluðu ráðherrar um að fiskveiðistjórnarkerfið væri bílslys og annað í þeim dúr. Því miður tókst ekki sú sátt sem þeir ætluðu sér að ná í fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég held að við eigum hér í dag að horfa fram á veginn, finna lausnir. Ég reyndi í ræðu minni áðan að koma fram með lausnir. Tekið var undir það hér að ræða um að taka út hlut vinnslunnar, gera henni kleift að borga hærri laun. Hvað ætli ég sé búinn að tala um það oft úr þessum stól eða rita margar greinar um að hækka laun fiskvinnslufólksins? Ég held að við getum verið sammála um að við eigum að vera heiðarleg og góð í þessari umræðu og finna leiðir sem verða á endanum til þess að þjóðin og við græðum á þessu öllu saman.