143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[18:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel eitt af grundvallaratriðum okkar þegar við fjöllum um fiskveiðistjórnarkerfi og þann takt sem hefur verið sleginn á undanförnum árum að við höldum áfram fjölbreytni í íslenskum sjávarútvegi, einhverju samspili á milli stórra fyrirtækja sem ég ítreka samt sem áður aftur að eru ekki stór á evrópskan mælikvarða eða í samanburði við þau lönd sem við berum okkur saman við þó að þau séu stór á okkar mælikvarða. Við verðum að hafa í huga þegar við tölum um þennan markaðsaðgang og þessa samkeppni á erlendum mörkuðum að við vinnum hana ekki á magninu heldur gæðunum, vörunni, afhendingartímanum og hvernig við stýrum þessu. Það eru stóru atriðin þar.

Ef við ætlum að hafa sátt um þetta verður hún aldrei til að mínu mati í samfélaginu, alveg þvert á flokka og hjá almenningi í þessu landi, öðruvísi en að við stöndum vörð um fjölbreytnina í útgerðinni. Það réð ferð okkar síðasta sumar þegar við hækkuðum veiðigjöld á þessi stóru uppsjávarfyrirtæki og lækkuðum þau á bolfisksfyrirtækin. Það var vitlaust gefið þannig að við slógum tóninn þar. Það má vel vera að við höfum gengið of langt í því miðað við núverandi aðstæður í álagningu á stóru fyrirtækin en þau geta betur ráðið við þetta.

Ég tel að í gegnum fiskveiðistjórnarkerfið, í gegnum álagningu veiðigjalda, þurfum við að leita þessa jafnvægis. Ég er ekki viss um að við höfum náð þeim markmiðum að öllu leyti í þessu frumvarpi. Ég held að við séum enn ekki komin á leiðarenda og það sýnir okkur kannski hversu vandasamt verkið er eftir alla vinnu á síðasta kjörtímabili og vinnu þessara góðu sérfræðinga núna í vetur. Þetta er mismunandi afkoma, stærðarhagkvæmnin í greininni er mikil og við verðum að leita leiða til að halda þessu fjölbreytta formi vegna þess að við vitum að þessar litlu og meðalstóru útgerðir (Forseti hringir.) eru grunnurinn að byggðum víða um land.