143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[18:26]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt. Það hefur komið hérna fram að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn komu á almenna veiðigjaldinu. Í dag er það áætlað samkvæmt frumvarpinu 5 milljarðar eða um 10 kr. á hvert kíló og er óbreytt frá því sem það var á síðasta ári síðustu ríkisstjórnar. Það hefur ekkert lækkað. Það tekur ekki mið af neinni afkomu í greininni, það er bara lagt á við úthlutun. Ef greinin verður rekin með tapi verður þetta gjald samt sem áður greitt eftir því kerfi sem sett var í tíð framsóknarmanna og sjálfstæðismanna á sínum tíma.

Sérstaka gjaldið sem komið var á af síðustu ríkisstjórn, sem var kannski aðaldeiluefnið, þ.e. hvernig ætti að reikna það út, tekur hins vegar mið af afkomu. Það er í dag samkvæmt frumvarpinu tæpir 3 milljarðar kr. Það fer niður í 3 milljarða eða um 6,3% af hagnaðartölunni sem hv. þingmaður er að tala um að hafi verið hagnaður útgerðar og fiskvinnslu sjávarútvegsins árið 2012. Það er nú öll talan þegar tekið er (Forseti hringir.) tillit til þeirra afslátta sem koma inn í og verður að taka til vegna þess að þeir eru hér. (Forseti hringir.)

Lokaspurningin er: (Forseti hringir.) Var ekki hv. þingmaður sammála því að þessir (Forseti hringir.) afslættir væru settir inn?