143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[18:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það er alveg rétt að ákveðnar undanþágur voru í gangi og meðal annars þegar við fórum árið 2007 niður í 130 þús. tonn í þorski. Margir höfðu á árunum á undan verið að kaupa sér aflaheimildir, þegar kvótinn var miklu meiri, og höfðu fjárfest í þeim aflaheimildum fyrir stórfé. Þeir sátu náttúrlega uppi með skuldirnar að fullu en þurftu að greiða af þeim af miklu minni aflaheimildum. Þá drógum við úr veiðigjöldum, reyndum að koma til móts við greinina eins og við þurfum að gera gagnvart öllu atvinnulífi ef slík áföll gerast. Það er ekkert óeðlilegt við það.

Við þurfum að reyna að nálgast þessa umræðu á málefnalegri nótum. Þegar ég er að vitna í skotgrafir, að menn séu hér í skotgröfum, þá á ég við þann málflutning, sem færri og færri taka sem betur fer þátt í, að hér sé einhver auðlegðarklíka, einhverjir útgerðargreifar. Ekki þarf annað en vitna í ummæli hæstv. forsætisráðherra á síðasta kjörtímabili, hvernig talað var um þessa grein. Og í hvaða tilgangi er það?

Síðan kemur hér hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir áðan — ég get ekki annað en haft orð á því aftur — og sakar þessa grein um stórkostleg skattundanskot, talar um að menn hafi komið peningunum fyrir einhvers staðar úti í bæ og í skattaskjólum erlendis án nokkurs rökstuðnings. Er þetta boðlegt hér á hinu háa Alþingi að þingmenn tali með þessum hætti? Þetta kalla ég að vera í skotgrafahernaði. Ég er tilbúinn til að taka þátt í málefnalegri umræðu um þetta. Okkur greinir örugglega á um leiðir en við verðum að hafa umræðuna á málefnalegum nótum og tala um málin eins og þau raunverulega eru, halda staðreyndunum á hreinu.