143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[18:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að ég fór yfir það hér áðan að fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar ætluðu sér að umbylta kerfinu. Þeir boðuðu fyrningarleiðir og mikla byltingu í þessu kerfi en komust aldrei áfram með það. Það er bara staðreynd. Svo var settur á laggirnar þessi sáttahópur sem kom með ákveðna niðurstöður. Það er á þeim grunni sem núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra er að reyna að vinna þessi mál og er að reyna að skapa einhvern sáttagrundvöll. Ég veit að hann hefur fundað með forustumönnum minnihlutaflokkanna á þingi til að reyna að skapa sáttagrundvöll. Það verður okkar markmið næsta vetur þegar við fjöllum um fiskveiðistjórnarkerfið.

Af hverju voru engar fjárfestingar á þessum árum? Jú, það er, eins og komið hefur fram, af ytri ástæðum. En af hverju voru árin svona góð eftir hrun? Það var auðvitað út af leiðréttingunni á gjaldmiðlinum, íslensku krónunni. Það var ekkert annað sem gerðist. Og þá hefðum við viljað sjá sambland af fjárfestingum og niðurgreiðslum lána en við sáum fyrst og fremst áherslu á að greiða niður lánin, ekki að það hafi verið mjög slæmt en fjárfestingarnar hefðu þurft að fara af stað við þær aðstæður.