143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[18:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég komst ekki hjá því að heyra ummæli síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Hann taldi smekklegt að halda því til haga áfram að ég væri að bera upp á útgerðir í landinu að þær væru að koma fyrir fjármunum í skattaskjólum erlendis og svíkja undan skatti. Mér þykir það vera málflutningur á mjög lágu plani að segja hlutina nógu oft svo að þeim verði trúað.

Ég talaði almennt í ræðu minni um að löggjöfin ætti að vera þannig að hún kæmi í veg fyrir að menn gætu komist hjá því að greiða eðlilegan skatt til samfélagsins og að þetta frumvarp gæfi tækifæri til þess að færa hagnað til dótturfélaga erlendis og komast þar með hjá skattgreiðslum. (Forseti hringir.)

Ég ítreka að ég er mjög ósátt við svona málflutning hjá hv. samþingmanni mínum.