143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[18:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrst um þau orð sem féllu hjá formanni atvinnuveganefndar, hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Áður en menn fara að hvetja aðra til að koma sér upp úr förunum væri kannski ráð að byrja á því að drösla sér sjálfir þaðan upp, því að hv. þingmaður hefur ekki getið sér orð fyrir að ræða um sjávarútvegsmál af sérstakri virðingu fyrir öðrum sjónarmiðum eða öðrum stjórnmálamönnum þar um, samanber þær vísanir sem hann hefur haft í þessari umræðu og mörgum öðrum. En allt um það.

Það er ástæða til að fagna á þessum björtu vordögum yfir því sem vert er að gleðjast yfir. Eitt af því sem gefur tilefni til að gleðjast yfir núna er að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að koma með heildarendurskoðun á sjávarútvegskerfinu inn í þingið eru að engu orðnar. Í því efni lítur sem betur fer ekkert frumvarp dagsins ljós. Ríkisstjórnin hefur ekki getað lokið því verkefni frekar en svo mörgum öðrum á þessu fyrsta ári sínu þrátt fyrir að hafa gefið um það digurbarkalegar yfirlýsingar, það kemur hér fram í öllu sem lýtur að heildarendurskoðun á sjávarútvegskerfinu, framtíðarfyrirkomulagi og þeirri sátt sem þessir flokkar hafa nú ítrekað talað þvert um hug sér um varðandi þessa grein. Í öllum þessum efnum er ríkisstjórnin tómhent, slypp og snauð eftir fyrsta starfsárið og verður sennilega langt liðið á annað árið þegar örla fer á einhverjum tillögum eða hugmyndum í þeim efnum. Það er auðvitað bara til að undirstrika verkleysi ríkisstjórnarinnar almennt og skort á málafylgju og því að hér komi inn í þingið þau mál sem margar yfirlýsingar hafa verið gefnar um að eigi hingað að koma en hafa síðan að loknum þingvetri aldrei litið dagsins ljós. Ríkisstjórnin er einfaldlega ekki fær um að standa við stóru orðin.

Það er hins vegar gleðiefni vegna þess að þau litlu frumvörp sem ríkisstjórnin hefur komið inn með varðandi sjávarútveginn, þá fyrst varðandi veiðigjöldin í sumar og síðan núna, eru satt að segja svo vond að það er eins gott að ekki er verið að gera stórar breytingar í sjávarútvegi þegar hinar litlu breytingar eru jafn vondar og málatilbúnaðurinn jafn lélegur og raun ber vitni.

Það var vel dregið fram hér áðan með hvaða hætti ríkisstjórnin hefur leikið auðlindagjaldið á þessu fyrsta ári sínu ef hún nær þessu þingmáli hér fram. Það málamyndagjald sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn settu á 2002 næmi í dag um 5 milljörðum kr. og eins og hv. þm. Kristján L. Möller fór í gegnum er búið að lækka veiðigjöldin svo verulega að þau eru að nálgast það aftur að vera það málamyndagjald sem var vel innan við 10 kr. á kíló af þorski. Það er náttúrlega í engu samræmi við þau verðmæti sem útgerðarmenn eru með í höndum með aðgangi að auðlindinni.

Það hefur lengi verið afstaða okkar í Samfylkingunni að það væri best og farsælast að menn greiddu fyrir aðgang að auðlindinni eftir því sem þeir treystu sér til á markaði. Í frjálsum viðskiptum byðu menn einfaldlega þær fjárhæðir sem þeir væru tilbúnir til þess að borga fyrir þessar heimildir, kepptu hver við annan í frjálsri samkeppni um slíkar heimildir og það þyrfti ekki að vera deiluefni hér á Alþingi frá ári til árs hvað væri eðlilegt að útgerðin greiddi fyrir aðgang að þessum auðlindum sem við eigum öll saman heldur réðist það bara af frjálsri samkeppni á markaði. Það væri auðvitað langsamlega heilbrigðasta skipulagið á þessum málum en því miður hefur aldrei skapast meiri hluti fyrir slíkum sjónarmiðum hér á Alþingi. Það hefur aldrei orðið meirihlutasjónarmið hér í þessum sal þó að það sé eindregin afstaða okkar.

Það er hins vegar tækifæri til að virkja slíkar leiðir í ríkari mæli hvað varðar nýjar tegundir. Mér heyrist satt að segja að í æ fleiri stjórnmálaflokkum hér á Alþingi sé að skapast áhugi á því að kanna möguleika á því varðandi nýjar tegundir. Þá horfa menn einkanlega á makrílinn, hvort ekki megi beita slíkum markaðsaðferðum við að ráða til lykta ákvörðun um verðlagningu á þeim heimildum vegna þess að hér er um að ræða nýja tegund þar sem enginn hefur keypt sér kvóta til að gera út og enginn er með skuldir vegna kvótakaupa í makríl á bakinu. Það var nú helsta röksemdin fyrir því að menn yrðu að fara varlegar fram en uppboðsleiðin gerði ráð fyrir gagnvart kvótahöfunum í öðrum tegundum. Í makrílnum eru þau efnisrök einfaldlega ekki fyrir hendi að þar séu útgerðarmenn með skuldir, fjármagnskostnað og afborganir af kvótakaupum sem taka þurfi tillit til. Þar eru þess vegna ákaflega fá rök gegn því að útgerðarmenn eigi bara að keppa um þessar heimildir, borga fyrir þær í verði sem ráðist á markaði og þá helst auðvitað með uppboðsaðferð þannig að við getum látið verðið ráðast sem mest af aðstæðum eins og þær eru á hverjum tíma. Það má auðvitað í þessu efni sjá fyrir sér að einhverjir útgerðarflokkar séu undanskildir í þessu. Það er auðvitað ekki sama hvort við erum að tala um stór skip í útgerðum eða smábáta og við getum horft til þess í þessu efni að frændur okkar Færeyingar rukka tvöfalt hærra gjald fyrir réttinn til að veita makríl en sjávarútvegsráðherra gerir ráð fyrir hér, en þeir taka hins vegar ekki gjald af smærri skipum og bátum. Það eru stóru aðilarnir sem axla gjöldin í þeirra kerfi og ég held að það sé út af fyrir sig sjónarmið sem horfa megi til.

Hér er um að ræða tegund og gríðarleg verðmæti í lögsögu okkar sem eru klárlega sameign okkar og enginn hefur haft mikla reynslu af fyrr en tegundin kom hingað og enginn hefur skuldsett sig til að kaupa kvóta í. Það hlýtur því að vera býsna áleitin spurning hvort ekki sé eðlilegt að útgerðir sem vilja gera út á makríl eigi bara að borga markaðsverð fyrir þær heimildir og að það markaðsverð eigi bara að ráðast í frjálsum viðskiptum á markaðnum.

Ég er raunar þeirrar skoðunar að það væri líka affarasælast um aðrar tegundir þó að þar yrði auðvitað að taka tillit til þeirra útgerða sem skuldsett hafa sig í kvótakaupum fyrr á tíð í öðrum tegundum en makríl. En á meðan ekki er pólitískur vilji til þess þá er veiðigjald næsti kostur og á þeim kosti eru ýmsir gallar. Einn er sá að þar skattleggjum við í raun og veru afkomuna eftir á. Hér er verið að leggja til grundvallarafkomu ársins 2012 þegar þessi veiðigjöld eru lögð á. Ef við horfum til afkomu ársins 2012 þegar framlegðin í greininni var nærfellt 100 milljarðar þá voru veiðigjöldin upp á 8 milljarða, þau voru ekki bara hófleg, þau voru fáránlega lág. Eðlileg auðlindarenta á árinu 2012 væri miklu hærri tala og miklu hærri fjárhæðir en þessir 8 milljarðar sem ættu að renna í ríkissjóð á grundvelli þeirra talna. Sem betur fer er það þannig, eins og hér hefur verið rakið í umræðunni, að þrátt fyrir ýmsan barlóm er augljóst á nokkrum fyrstu uppgjörunum fyrir árið 2013 að mikill hagnaður var í því sjávarútvegi á því ári. Það segir sína sögu þegar við horfum á það að þær tekjur sem við höfum til að mynda í makrílnum miðað við þá framlegð sem menn reikna í þá grein, eru helmingi minni en Færeyingar hafa af útgerðarfyrirtækjum sem þó eru, sum hver að minnsta kosti, í íslenskri eign. Íslenskt útgerðarfyrirtæki sem þarf að borga 15 kr. fyrir að veiða kíló af makríl í færeyskri lögsögu lætur sig ekkert muna um það, en það þarf bara að borga 7,50 kr. hér. Bendir það ekki til þess að gjöldin hér séu býsna lág, að minnsta kosti helmingi of lág fyrst menn treysta sér til að greiða gjöldin hinum megin við þá línu sem markar landhelgi okkar og Færeyja? Það virðist a.m.k. vera hægt að sækja þennan afla og vinna úr honum og hafa af því hagnað þrátt fyrir þessi gjöld og vera býsna eftirsótt. Það er ástæða til að spyrja sig þegar maður horfir á krónutöluna í þorskinum, 11,74 kr. fyrir réttinn til að veiða kíló af þorski, hvort þessi gjaldtaka sé ekki orðin svo fráleitlega lág að það veki efasemdir um að nokkuð verði hægt að skapa sátt um að hafa hér einhverja langtímasamninga við einhverjar útgerðir og þær borgi eðlilegt veiðigjald í ríkissjóð, vegna þess að það er augljóslega ekki pólitískur vilji af hálfu stjórnarflokkanna til þess að útgerðin borgi eðlilegt veiðigjald.

Hér koma menn og hafa uppi alls kyns hrakspár um afkomu í útgerð hver á fætur öðrum við hin minnstu tilefni. Hér fara menn mikinn um það að afkoman eða afurðaverðið hafi farið svo mikið lækkandi á fyrstu átta mánuðum ársins 2013, þ.e. síðari hluta fiskveiðiársins 2012/2013, að þetta séu algerlega óhófleg gjöld, 11 kr. á hvergi kíló af þorski, 7,50 kr. fyrir kílóið af makríl. En síðan þegar menn skoða ársreikninga fyrirtækja fyrir það ár er þar engu að síður sem betur fer að finna gríðarlegar hagnaðartölur sem skiptir tugum milljarða, þrátt fyrir lækkandi afurðaverð á heimsmörkuðum. Hvers vegna er það? Það er m.a. vegna þess, sem betur fer, að bæði norska virðiskeðjan í fiskinum og enn þá meira sú rússneska bregðast lítið við þeim breytingum sem verða á verði á mörkuðum ólíkt hinni íslensku. Við Íslendingar erum heppnir í því efni og njótum þess að eiga mjög öflugan sjávarútveg, mjög markaðsdrifinn og sveigjanlegan. Við vitum að þegar verð lækkar á tilteknum og afurðum þá bregðast menn hér hratt við og leita að betra verði og betri mörkuðum og menn flytja sig. Eins og dæmin sanna þá leggja menn frystitogurunum og leita inn á aðra markaði. Menn gera það býsna fljótt og reyna að lágmarka þann samdrátt í tekjum sem er. Það er engu að síður samdráttur frá því sem verður að teljast besta afkoma í útgerð fyrr og síðar í lýðveldissögunni, en það var í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur sem afkoman í sjávarútvegi var betri en hún hefur nokkru sinni verið og er ástæða til að minna á það.

Þegar við ræðum um gjaldtöku í þessari grein er auðvitað ástæða til þess að hafa áhyggjur af lækkandi afurðaverði á tilteknum afurðum á tilteknum mörkuðum en menn verða engu að síður að hafa í huga heildarmyndina, að Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna spáir verðhækkunum á sjávarafurðum á bilinu 30–40% á komandi árum, þannig að það er fullsnemmt að fyllast svartsýni fyrir hönd íslensks sjávarútvegs. Ég held að það sé þvert á móti full ástæða til að vera bjartsýnn fyrir hönd þeirrar öflugu og ágætu atvinnugreinar sem við eigum þar frekar en að ætla það að hún geti ekki staðið skil á eðlilegum gjöldum fyrir aðgang að auðlindinni, það eiga menn ekki að gera hér í þessum sal. Það er einfaldlega eðlilegt og sanngjarnt að menn greiði sanngjarnt endurgjald fyrir aðgang að auðlindinni. Það vita það allir þeir 63 þingmenn sem hér sitja að (Forseti hringir.) 11,74 kr. fyrir aðgang að því að veiða eitt kíló af þorski er langt (Forseti hringir.) undir sannvirði og langt undir því sem fengist á markaði.