143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[18:54]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðuna. Hann fór ágætlega yfir grundvallarhugmyndafræðina, þ.e. að mikilvægt sé að þeir sem fá réttinn til að yrkja auðlindina greiði fyrir þann rétt sanngjarna rentu. Það hefur lengi staðið í lögum um stjórn fiskveiða og verið undirstrikað að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar. Það er hins vegar ekki víst að þjóðin hafi upplifað þá sameign með beinhörðum hætti. Þess vegna tel ég að veiðigjaldamálið á síðasta kjörtímabili hafi orðið jafn stórt mál og raun bar vitni og mikilvægt mál, þ.e. álagning sérstaka veiðigjaldsins og að tengja innheimtu veiðigjaldsins við framlegðina þannig að þetta yrði í rauninni auðlindarenta en ekki skattlagning sem slík. Ég held að það sé líka ástæðan fyrir þeim miklu mótmælum sem urðu hér í fyrrasumar þegar ákveðið var að lækka sérstaka veiðigjaldið.

Það sem mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í hugmyndafræðina sem hefur verið boðuð við innheimtu gjaldsins, þ.e. að heildarveiðigjöldin séu reiknuð sem hlutfall af EBT-hagnaði. Aðferðafræðinni er breytt frá gildandi lögum þar sem gjaldtakan er miðuð við umframarðinn eða rentuna. Nú stendur sem sagt til, miðað við frumvarpið, að miða við það sem er kallað EBT-hagnaður, þ.e. tekjur af fiskveiðum að frádregnum afskriftum og fjármagnsliðum svo sem vöxtum, verðbótum og gengismun. Eingöngu er miðað við tekjur af fiskveiðum en til frádráttar koma allir þessir liðir. Það vekur auðvitað spurningar hvort þessi breyting sé ætluð til að rjúfa að einhverju leyti sambandið við auðlindarentuna, að við séum að taka ákveðið hlutfall af þeim umframarði sem menn hafa af því að yrkja auðlindina sem þeir fá þetta sérstaka leyfi til að nýta, (Forseti hringir.) með því að breyta þessari … (Forseti hringir.) Mig langar til að inna hv. þingmann eftir því hvort hann telji að (Forseti hringir.) sú hugmyndafræði sem hér er boðuð þjóni þeim tilgangi að (Forseti hringir.) undirstrika sameign á auðlindinni.