143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[19:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er rétt, við erum ekki sammála um markaðslausnina en ef það er ekki þingmeirihluti fyrir henni er um að gera að reyna að þróa veiðigjaldið sem tæki sem best.

Ég kom því ekki að hér áðan tímans vegna að mér þykir miður í þessu frumvarpi að ekki er farið í nýjustu gögn sem ég held að sé mögulegt á grundvelli vinnu veiðigjaldsnefndarinnar. Spálíkanið sem þar hefur verið þróað held ég að gefi færi á því að vera með einu ári nýrri gögn til að ákvarða veiðigjaldið út frá en hér er gert ráð fyrir. Það yrði sannarlega framför.

Ég held líka að ef unnt væri að tengja gjaldið með einhverjum hætti viðskiptum á markaði í ríkari mæli en við gerum nú væri það mjög ákjósanlegt. Ég bendi t.d. á að í nágrannalöndum okkar eru markaðir með uppsjávarfiskinn. Þar er hægt að nálgast verð í viðskiptum á markaði á uppsjávarfiski. Ef það væri til að mynda hægt að horfa til einhverra slíkra hluta, þess verðs sem ræðst á markaði frá degi til dags, þá væri það mikil framför.

Ég vil auk þess, úr því að við nefnum uppsjávarfiskinn, taka það fram að ég held að það sé afturför í þessum tillögum að draga úr vægi vinnslunnar í veiðigjaldinu. Ég held, a.m.k. hvað uppsjávarfiskinn varðar, að í raun og veru sé ástæða til að hafa alla vinnsluna inni í gjaldinu því að það er ákaflega erfitt að greina í sundur veiðar og vinnslu í uppsjávarfiski þó að það geti verið rök fyrir því að aðskilja vinnsluna frá og gera ekki auðlindarentukröfu á hana í bolfiski, þ.e. ef eignarhald á veiðum og vinnslu er ekki á sömu hendi.