143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[19:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar lýsti ágætlega því sem kalla mætti sleifarlagi hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli, hvernig um það er búið og hversu seint það kemur hingað inn. Það kann að vera rétt sem hann segir að ríkisstjórnarflokkarnir vilji alls ekki mikla umræðu um þetta mál og það sé m.a. ástæðan fyrir því að það kemur seint fram og fær þá væntanlega skamman tíma í þingnefnd ef ætlunin er að afgreiða það áður en þingi lýkur fyrir sveitarstjórnarkosningar um miðjan maí.

Annað atriði sem ég vildi velta upp við hv. þingmann hefur komið fram í umræðunni og m.a. í máli hv. formanns atvinnuveganefndar, Jóns Gunnarssonar, að allir væru fylgjandi eðlilegu veiðigjaldi. Þá er spurningin: Er það svo? Eru allir fylgjandi eðlilegu veiðigjaldi? Hvað er þá eðlilegt veiðigjald? Hvað telur hv. þm. Helgi Hjörvar að sé eðlilegt veiðigjald? Ef við reynum að stilla þessu upp í því samhengi sem hv. þm. Jón Gunnarsson var með hér áðan þegar hann sagði: Já, það vilja allir eðlilegt veiðigjald — hvað er eðlilegt veiðigjald? Hvert á viðmiðið að vera að áliti hv. þingmanns? Hvað sýnist honum að ríkisstjórnarflokkarnir telji eðlilegt veiðigjald ef hann ber það saman við eigin hugmyndir um veiðigjaldið? Það sem ég er að reyna að ná fram er hvort það sé sameiginlegur skilningur á hugtakinu „eðlilegt veiðigjald“.