143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[19:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér hefði verið mjög gaman umræðunnar vegna að fara yfir það í þinginu hvað liggur þarna að baki, vegna þess að það er alltaf verið að vitna í þessa skýrslu og nefndina frá 2009–2010 varðandi sáttanefndina sem í voru yfir 20 aðilar. Ég hef sjálfur dregið úr því þegar menn hafa talað um einhverja ákveðna sátt, vegna þess að menn draga fram ákveðin atriði eins og allir hafi orðið sáttir við niðurstöðuna.

Það sem gerðist var að lagðar voru fram ýmsar og ólíkar hugmyndir. Þarna voru fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum, frá öllum hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og yfir 20 manns við borðið. Þó var LÍÚ ekki við borðið lengst af tímanum af því að þeir fóru í fýlu út af skötusel en komu svo aftur inn á seinni stigunum. Þar kom upp sú hugmynd að menn sæktu sér svolítið fyrirmyndir til að reyna að skapa almennt umhverfi sem tengdist auðlindaumræðu almennt, að sjávarútvegurinn yrði settur í það umhverfi. Þar var rætt um að hugsanlegt væri að fara út í samninga til einhvers tiltekins tíma, jafnvel lengri tíma, en í því fælist líka að menn væru þá með alveg klárar skuldbindingar, m.a. var alveg skýrt að þeir sem gerðu slíka samninga væru ekki eignaraðilar að neinu, þeir væru sem sagt notendur og leigjendur að auðlindinni.

Það var sameiginleg afstaða að það ætti að vera gjaldtaka. Það kom líka fram að það ætti að vera ákveðin úthlutun til útgerða í gegnum þessa samninga og síðan ættu að vera byggðapottar og var alveg afdráttarlaust að ákvæði ætti að koma í stjórnarskrá. En það sem stóð út af og var aldrei leyst var með hvaða hætti menn ættu að finna gjaldtökuupphæðina, og í öðru lagi hvernig menn ætluðu að tryggja endurnýjunina, þ.e. nýliðunina og hvernig menn færu með nýja stofna og annað slíkt, að þetta væri ekki lokað kerfi einhvers hóps sem hefði fengið úthlutun í upphafi miðað við þriggja ára veiðireynslu.

Menn skauta svolítið létt yfir þetta, en það er ekkert smámál í lýðræðislegu samfélagi í viðskiptalegu umhverfi (Forseti hringir.) hvernig menn ætla að leysa þetta.