143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[19:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég verði að svara þessu skýrt, að það er í rauninni alls ekki skýrt með þessu frumvarpi hvert verið er að fara hvað þetta varðar. Hin hugmyndin var sú að reyna að búa til eitthvert almennt gjald sem væri hluti af ríkisrekstrinum, sem væri hluti af því að við hefðum tekjur af grunninum bæði til að borga kostnað vegna rannsókna og kostnað við landhelgisgæslu og ýmislegt annað, að við borguðum það sameiginlega með einhverju gjaldi sem væri ákveðinn grunnur. Síðan kæmi sérstakt gjald sem væri háð afkomu og reynt að skilgreina hver væri raunverulega afgangurinn hjá viðkomandi útgerðum þegar búið væri að draga fram allan eðlilegan kostnað og menn fyndu töluna þannig, eitthvert hóflegt og sanngjarnt gjald.

Hugmyndin var sú að það mætti alls ekki vera þannig að ríkissjóður væri háður þessum tekjum þannig að menn stýrðu velferðarkerfinu á þeim forsendum að treysta á að hér væri einhver hámarksafkoma í sjávarútvegi, heldur væri það lagt inn í auðlindasjóð eða sérstakt verkefni, svipað og gerð var tillaga um í fjárfestingaráætluninni þar sem sagt var: Ókei, við höfum ákveðna afkomu hér tímabundið, við skulum nýta okkur hana til þess að leysa ákveðin sérverkefni, hvort sem í gangagerð eða varðandi Herjólf eða vegsamgöngur eða eitthvað annað eða til að byggja spítala. Við notum sem sagt þessa peninga í það en við vitum að það er ekki hluti af föstum rekstrargrunni í ríkissjóð.

Ég sé ekki að verið sé að taka nein skref í þá átt og ég óttast það ef menn fara tekjuskattsleiðina að það verði bara svipað og verið hefur með veiðigjaldið frá því að það var sett á upp úr 2000, að það verði meira og minna alltaf togstreita og undanþága á hverju ári um að falla frá því eða veita afslátt. Og þá erum við engu nær, þá erum við farin að skattleggja árlega einhverja atvinnugrein vegna þess að hér situr þingheimur og spáir fyrir um afkomuna, er með einhverjar getgátur, enda er það þannig að eftir alla þessa miklu vinnu kemur fram frumvarp sem er bráðabirgðafrumvarp til eins árs og boðað er að skoða eigi þetta betur.