143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[20:42]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, formanns utanríkismálanefndar, í óvenjulegri málsmeðferð svo vægt sé til orða tekið. Fram kemur í ályktarorðum í lok nefndarálitsins að í rauninni séu engin staðfest fordæmi sem finna megi fyrir því að svona lagað hafi verið gert hér áður.

Ég játa að ég þekki þetta mál ekki nægjanlega vel til þess að geta fjallað mjög mikið um það og þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson. Málið kemur hingað inn með miklum tilþrifum þar sem kalla þurfti fólk til atkvæðagreiðslu til að hægt væri að afgreiða það. Um hvaða breytingu er að ræða? Er verið að bakka með þá meginreglu að flugið þurfi að kaupa sér losunarheimildir? Hvað mundi gerast ef við mundum ekki samþykkja þetta? Mér heyrðist hv. þingmaður tala um að við þyrftum að klára þetta mál mjög hratt. Hefur hann hugmyndir um hvað þetta mundi kosta flugið okkar hérna heima, þ.e. Flugleiðir ef flugfélagið þyrfti að borga þetta? Þetta er ívilnandi, eins og kemur fram í nefndarálitinu, „á margan hátt, miðað við það sem ella hefði orðið“. Hversu mikið í krónutölu er um að ræða þennan tíma, þ.e. sú ívilnun að þurfa ekki að kaupa sér losunarheimildir?