143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[20:44]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem er meginefnisinnihald þeirrar breytingar og þeirrar reglugerðar Evrópusambandsins, sem við segjumst ekki ætla að gera stjórnskipulegan fyrirvara við, er að því er frestað að reglur um loftslagsheimildir og viðskipti með þær taki gildi varðandi flug inn og út af EES-svæðinu og frestunin gildir til 2016. Það er meginbreytingin.

Þessu var áður frestað og spurningin var hvort menn vildu framlengja þann frest. Ástæðan fyrir því að þessi leið er valin innan Evrópusambandsins er sú að ekki hefur náðst víðtækara samkomulag um viðskipti með loftslagsheimildir hvað varðar flugið. Það varð sem sagt niðurstaðan ytra að í ljósi þess væri eðlilegt að því væri enn frestað um sinn að viðskiptakerfið með loftslagsheimildir, sem gildir innan Evrópska efnahagssvæðisins, næði líka til flugsins inn og út af svæðinu. Í okkar tilviki eru ríkustu hagsmunirnir tengdir Ameríkuflugi.

Það kom fram á nefndarfundi í gær að þarna gæti verið um að ræða árlegan kostnað fyrir stærsta flugrekandann hér um kannski milljón evrur á ári. Breytingarnar sem felast í þessu eru víðtækari. Þeim flugrekendum sem heyra undir reglurnar fækkar líka mjög mikið þannig að smærri aðilar eru undanskildir, í einföldu máli sagt. Þær breytingar sem hér er um að ræða eru ívilnandi og aðstæður í málinu voru með þeim hætti að það setur á okkur pressu að afgreiða það á skömmum tíma vegna þess að ef við tökum ekki upp þessar reglur á sama tíma og önnur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu er hætta á því að það skapaði íslenskum flugrekendum óheppilegri samkeppnisaðstæður, um sinn a.m.k.