143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[21:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Hv. þingmaður talar mikið um markaðsleiðir og þar skilja leiðir okkar. Hún talar um að uppboðið á veiðiheimildum sé vænlegasti kosturinn til að útdeila þeim gæðum sem sjávarauðlindin er og að ríkið fengi tekjur í gegnum uppboð á veiðiheimildum.

Mig langar að heyra nánar frá henni hvernig hún telur að það mundi gera sig gagnvart þeim byggðum landsins sem eiga undir högg að sækja þegar kemur að möguleikum á að taka þátt í slíkum útboðum eða uppboðum. Hvernig sér hún fyrir sér öryggi í rekstri hjá þeim fyrirtækjum sem þurfa að treysta á uppboð hverju sinni hvað varðar rekstur fiskvinnslu í landi, markaðssetningu afurða og að gera út til lengri tíma? Það á kannski frekar við þær útgerðir sem hafa ekki eins gott aðgengi að fjármálastofnunum til þess að fjármagna uppboð sín á veiðiheimildum, ef hún er að tala um að það eigi að bjóða upp veiðiheimildir á hverju ári. Telur hún að það þurfi að setja einhverjar girðingar byggðalega séð til þess að tryggja að hægt sé að stunda sjávarútveg og vinnslu í þeim byggðarlögum þar sem að minnsta kosti er verið að gera út í dag? Óttast hún ekki samþjöppun veiðiheimilda, nóg er nú fyrir? Telur hún ekki að stærstu útgerðirnar hafi sterkustu stöðuna til að kaupa upp aflaheimildir á uppboði hverju sinni?