143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[21:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst augljóst að við eigum að nýta okkur þá markaðsleið til að hreinlega gera út um þessa deilu. Okkur virðist ekki auðnast að nota þá aðferð sem víða er notuð og er þekkt, að umframarðinum sé skipt á milli þjóðarinnar sem er eigandi auðlindarinnar og svo þeirra sem gera út. Okkur virðist ekki auðnast að ganga þann veg. Það er með hverju bráðabirgðaákvæðinu á fætur öðru verið að krukka í þá leið eins og nú er gert, meira að segja er í þessu litla frumvarpi talað um að útgerðarfyrirtæki geta dregið frá skuldir sem eru ekki í greininni, sem eru kannski bara í dagblöðum eða einhverju slíku, áður en veiðigjaldið er reiknað. Ég held að á meðan þetta er svona í höndum á stjórnmálamönnunum muni það alltaf vera bjagað. Það sem stjórnmálamennirnir eiga hins vegar að gera er að búa til rammann. Það þarf auðvitað að gæta að því að það séu ekki örfá fyrirtæki sem geta tekið allar veiðiheimildirnar og ráðið þannig verðinu. Það er hægt að gera með einföldu viðmiði um takmörk, að eitt fyrirtæki megi ekki eiga nema svo og svo mikið o.s.frv. Ég get séð fyrir mér byggðatengdar takmarkanir og því um líkt, en að markaðslögmálin ráði að öðru leyti.