143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[21:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það reynist alltaf erfitt að hleypa markaðsöflunum í hluti þar sem peningar eru annars vegar ef þau fá ekki að stjórna ferðinni að fullu. Ég sé ekki fyrir mér hvernig væri hægt að hefta þessi markaðslögmál þannig að hægt væri að setja girðingar með góðu móti, annaðhvort er þetta frjálst og hagræðingin og peningaöflin ráða þar ferð hverju sinni, eða að við horfum til þess að það sé einhver trygging fyrir því að byggðalegar og félagslegar áherslur séu innbyggðar í kerfið.

Mig langar varðandi auðlindaákvæði í stjórnarskrá að inna hv. þingmann eftir því hvort hún telji ekki að það feli líka í sér skyldur gagnvart samfélaginu í landinu um hvernig farið er með aflaheimildir sem slíkar. Hvort það felist ekki líka í því skylda til að nýta þær fyrir þá sem hafa hug á að stunda útgerð og þá sem eru í þessum sjávarplássum og hafa lifibrauð sitt af vinnu í kringum útgerð og vinnslu í afleiddum störfum. Væri hægt að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá en ætla svo að fela markaðslögmálunum að gera út um það hvernig við ráðstöfum þeim frá ári til árs? Eru ekki skyldur sem fylgja því að í stjórnarskrá sé það þjóðin sem eigi auðlindina?