143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[21:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er það svo að þótt grunnprinsippið sé að þeir sem vilja versla sér aflaheimildir bjóði í og verðið ákvarðist af því þá eru þetta eftirsótt sérleyfi. Það er mikilvægt að það sé greitt jafn mikið fyrir þau og markaðurinn treystir sér til, vegna þess að við viljum náttúrlega ekki heldur að þetta sé það hátt að það sligi útgerðina. En ef markaðurinn býður í heimildirnar, alveg eins og gerist þegar verktakafyrirtæki bjóða í verk, yrði arðurinn ákveðið hlutfall af markaðsverði sem gengi til ríkissjóðs sem sér um auðlindina fyrir hönd þjóðarinnar. Mér finnst það ekki flókið og ég er alls ekki hlynnt því að það sé algjört frelsi, það verða að vera einhver mörk. Það er okkar hlutverk hér að finna út þau mörk.

Það sem er algjörlega óásættanlegt er að stjórnmálamenn og einstaka ráðherra setji fram einhverjar tölur. Það er óásættanlegt. Að fara markaðsleiðina er besta leiðin. Það sem er næstbest er að fara þá leið sem við fórum á síðasta kjörtímabili og að ákveðið hlutfall af umframarðinum renni til þjóðarinnar. Það er ekki hægt að búa við að stjórnmálamenn ákveði verðið eða að arðurinn og auðlindin sé afmarkað með skattalegum aðferðum þar sem þau fyrirtæki sem eru flink í að svíkja undan skatti borga ekki neitt.