143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:00]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ágæta ræðu. Mig langar aðeins að velta upp með henni nokkrum spurningum. Ég held að við séum að mörgu leyti sammála í grunninn, þ.e. að tryggja eigi þjóðinni hlutdeild í auðlindinni sem sjávarútvegurinn nýtir, eins og hún kom inn á í ræðu sinni, sem og orkunýtingu o.fl. Getur hún verið sammála mér um það að í frumvarpinu sem við erum hér að fjalla um séu ekki færð almennileg rök fyrir því í greinargerðinni hvernig heildarfjárhæð veiðigjaldanna er ákvörðuð, þ.e. talnalegu forsendur þeirra?

Mikið er vitnað til þess, og það hefur verið sagt í ræðustól hér í dag, að ákveðið hrun sé fyrirsjáanlegt í greininni eða mikil niðursveifla. Það er hins vegar ekki undirbyggt með neinum hætti að mínu viti í þessu frumvarpi. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún geti verið sammála mér um það.

Eins heyrði ég að hún sagði í lok máls sín að hún óskaði eftir að fá frumvarpið sent til umsagnar hjá fjárlaganefnd, sem ég tek heils hugar undir. Ég spyr hana hvort hún sé ekki sammála því að fjárlaganefnd þurfi að ræða hvernig bregðast eigi við því tekjutapi sem kemur til á þessu ári, þ.e. milljarður, og 1,8 til viðbótar á næsta ári. Það var ekki farið neitt í það þegar skerðingin var ákveðin á síðasta ári, það kom aldrei sérstaklega til umfjöllunar í fjárlaganefnd heldur fór málið eingöngu til atvinnuveganefndar.